Kynna nýja samskiptastefnu í Egilsstaðaskóla

Það aðeins ef samskipti í skólum eru góð og gefandi sem byggja má á þeim árangursríkt nám. Það er meginstef nýs hugmyndakerfis sem Egilsstaðaskóli hefur tekið upp og hyggst kynna fyrir foreldrum og forráðamönnum nemenda í vikunni.

Nýja stefnan heitir Uppeldi til ábyrgðar. Hún byggist á svokölluðum þarfahring hvers og eins nemanda skólans en Egilsstaðaskóli er í raun hér að fylgja eftir leikskólum í bænum sem hafa áður tekið upp þetta sama kerfi og kennt eftir því í nokkur misseri að sögn Dagbjartar Kristinsdóttur, aðstoðarskólastjóra.

„Það má segja að þetta sé ný nálgun í aga og samskiptamálum. Þetta gengur út á jákvæða nálgun sem okkur langar að ná fram með góðu samtali, efla krakkanna að öðlast gott sjálfstraust. Það er gert með því að skoða náið þarfir hvers og eins og þar bæði nemenda og starfsfólks. Með öðrum orðum; hvaða þarfir þurfum við að uppfylla til að hvert og eitt barn að geta þrifist sem best.“

Nýja kerfið er kanadískt að uppruna og tekur mið af rannsóknum fræðimanna á heilastarfssemi, áhrifum umbunarkerfa, sjálfstjórnunarkenningum og fleiru slíku. Aðspurð hvort aga- eða hegðunarvandamál sé stórt vandamál í skólanum segir Dagbjört svo alls ekki vera. Það sé hins vegar alltaf einhver ástæða fyrir allri hegðun nemenda og því mikilvægt að horfa á hvern einstakling og þarfir hans.

„Það hefur um tíma verið umræða um það í kennara- og starfsmannahópnum okkar að það vanti einhverja samræmda stefnu í aga- og samskiptamálum í skólanum. Við kynntum okkur allmargar stefnur í þessa áttina á síðasta ári og eftir að við héldum svona óformlega kosningu í kjölfarið þá varð þessi fyrir valinu.“

Allt starfsfólk Egilsstaðaskóla fóru á sérstakt tveggja daga námskeið þessa vegna fyrir skömmu en allt síðasta ár voru kennarar að íhuga hvernig best væri að koma nýrri stefnu á fyrir hvern og einn bekk. Sótt var um fjárhagsstyrk vegna þessa því slíkt námskeið kostar um hálfa milljón króna miðað við upplýsingar frá framkvæmdaaðilum. Sá styrkur fékkst og það tókst að senda allt starfsfólk skólans á námskeið til að allir væru samstíga að innleiða þessa nýju nálgun sem er mikilvægur þáttur í því að vel takist til.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.