Kvikmyndatökur í Oddsskarði

Nýjasta kvikmynd leikstjórans Hlyns Pálmasonar verður tekin upp í Oddsskarði í vikunni. Búast má við töfum á umferð um skarðið vegna þess.

Kvikmyndin er tekin upp á nokkrum stöðum um landið en í frétt Eystrahorns frá í júní kemur fram að aðaltökustaðurinn sé húsið Stekkaklettur sem stendur við innkeyrsluna að Höfn í Hornafirði.

Söguþráður myndarinnar snýst um lögreglustjóra lítils sjávarþorps sem hefur verið frá starfi síðan eiginkona hans hvarf fyrir tveimur árum. Hann er ábyrgur faðir og einbeitir sér að því að byggja hús fyrir dóttur sína og fjölskyldu þar til hann byrjar að gruna mann í þorpinu um að tengjast hvarfi konu hans.

Með tímanum breytist grunur hans í þráhyggju sem óhjákvæmilega bitnar á þeim sem standa honum næst. Þetta er saga um hefnd, sorg og skilyrðislausa ást. Með aðalhlutverkið fer Ingvar E. Sigurðsson.

Hvítur, hvítur dagur er önnur kvikmynd Hlyns í fullri lengd en hún er framleidd í samstarfi við erlenda aðila. Fyrsta mynd Hlyns, Vetrarbræður, hefur hlotið yfir 30 alþjóðleg verðlaun.

Sem fyrr segir verða tökur í Oddsskarðsgöngum og nærliggjandi svæðinu dagana 13. – 22. ágúst. Því má búast við einhverjum lokunum á veginum upp Oddsskarði næstu daga.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.