Kárahnjúkavirkjun í hryðjuverkahættu?

karahnjukar.jpg
Mannvirki Kárahnjúkavirkjunar virðast þau íslensku mannvirki sem helst virðast í hættu fyrir hryðjuverkaárásum. Áhættan telst þó fremur lítil. Umferðarslys, sjóslys og náttúruvár eru þeir þættir sem helst ógna öryggi Austfirðinga. Þetta kemur fram í nýju áhættumati Almannavarna sem birt var í vikunni. 

Öll mannvirki sem tengjast Kárahnjúkavirkjun eru „útsett fyrir árásum hryðjuverkamanna og mótmælenda eins og sýndi sig í mikilli andstöðu við framkvæmdirnar,“ að því er fram kemur í áhættumatinu

„Í tengslum við virkjun Kárahnjúka voru eignir og líf manna lögð í hættu við mótmæli við Kárahnjúka, Reyðarfjörð og víðar. Skemmdarverk voru unnin á vinnuvélum og krönum, bifreiðum, byggingum, skiltum og 130 kw jarðstreng RARIK í Skriðdal,“ segir í kaflanum um óeirðir, skemmdarverk, óstöðugleika og hryðjuverk.

Tekið er fram að í sýslumannsumdæmunum á Seyðisfirði og Eskifirði sé talsverð reynsla er varðar mótmæli „sérstaklega er varða virkjanir og álver.“ Áhættan af þessum hryðjuverkaárásum eða mótmælum er þó ekki talin það mikil að tilefni sé til sérstaks viðbúnaðar.

Viðbragðsáætlun er til vegna stíflurofs í Hálslónu og áætlun fyrir Hraunaveitu verður kynnt á fundi í Végarði í Fljótsdal á þriðjudagskvöld. Gera þarf hættumat og áætlanir vegna uppistöðulónanna á Fjarðaheiði.

Áætlunum fyrir rútuslys ábótavant

Umferð á þjóðvegum umdæmanna er öllu hættumeiri. Varað er sérstaklega við slysum hópferðabifreiða í Seyðisfjarðarumdæmi, það fer í efsta flokk af fimm, „gífurleg áhætta, aðgerðir strax.“ Þar þarf að vinna hópslysaáætlun. Eskifjarðarumdæmið fer í annan flokk, „mikil áhætta, úrlausna leitað.“ Þar er mikil umferð hópferðabifreiða í tengslum við álver Fjarðaáls, ferðamenn og skólabörn. 

Þrátt fyrir mikla umræðu um hinn hættulega veg yfir Oddsskarð fer hann aðeins í næst efsta flokk. Þar er umdæmi Fjallabyggðar eitt. Sérstaklega er bent á vandræði viðbragðsaðila í Fáskrúðsfjarðargöngum, ekki sé til samhæfð viðbragðsáætlun um þau og TETRA samband lélegt. 

Umferð á sjó og vötnum getur einnig skapað hættu. Vinna þarf viðbragðsáætlun fyrir skemmtibátinn Lagarfljótsorminn og almannavarnarnefnd Hornafjarðar vill að gerð verði björgunaráætlun vegna skipsskaða í innsiglingunni um Hornafjarðarós. Engin samhæfð viðbragðsáætlun er til fyrir ferjusiglingar milli Neskaupstaðar og Mjóafjarðar. Siglingar skemmtibáta hafa aukist verulega í Fjarðabyggð.

Ofanflóð ógna vegum

Snjóflóð og skriður hafa tekið sinn toll af austfirskum mannlífum í gegnum tíðina. Því hefur verið unnið í rýmingaráætlunum og byggingu snjóflóðavarnagarða. Í Eskifjarðarumdæmi er bent á að skoða þurfi áhættuna í dreifbýli betur. Þá séu ýmis samgöngumannvirki í hættu.

„Þar má nefna Hvalsnesskriður, Þvottárskriður, Hamarsfjörð, sunnanverðan Fáskrúðsfjörð, Hólmaháls og Norðfjarðarveg (norðan Oddskarðsganga er þekkt snjóflóðahætta). Þá stafar samgöngum hætta af flóðum í ám, flóðum frá sjó og vegna fárviðris. Þá er nokkuð um einbreiðar brýr í umdæminu. Mikið landrof er við Jökulsá á Breiðamerkursandi með alvarlegar afleiðingar fari vegurinn í sundur.“ 

Stórflóð eru einnig varasöm. Vatnavextir í Lagarfljóti geta ógnað alþjóðaflugvellinum á Egilsstöðum og í Hofsá í Vopnafirði bæði flugvellinum þar og vegasamgöngum.

Eldfimir nytjaskógar

Gífurleg áhætta er talin af stórbrunum í Eskifjarðarumdæmi og nefnd stórbruna, einkum tengd fiskivinnslum. Slökkviliðin í umdæminu eru almennt talin vel búin. Vinna þarf viðbragðsáætlun vegna nýrrar atvinnugreinar á Héraði, skógræktar. Nytjaskógar séu mjög eldfimir og sumarhús á kjarri vöxnu svæði.

Eitraður úrgangur virðist ekki mikið vandamál í fjórðungnum. Þó er bent á að umfangsmikil hernaðarstarfsemi hafi verið á Stokksnesi við Hornafjörð og vitað sé um PCB mengun í gömlum sorphaug þar.

Ljóst er að vinna þarf viðbragðsáætlanir til að tryggja betur öryggi ferðamanna í Skaftafellssýslu. „Viðvaranir þarf við sprungusvæðum og hrunsvæðum. Tryggja þarf að hópar sem fara á jökul geri grein fyrir ferðum sínum. Ef rýma þarf svæðið snögglega væri hægt að hafa gátlista um aðgerðir eins og hvar sé hægt að safna fólki saman. Útbúa þarf viðbragðsáætlun fyrir leit og björgun á Vatnajökli. „

Vinna hafin við áætlanir þar sem áhættan er mest

Skýrslan var unnin í samvinnu ríkislögreglustjórna, sem hefur yfirumsjón með almannavörnum á landinu, og heimamanna í hverju héraði fyrir sig. 

„Með áhættuskoðun er leitast við að skilgreina hættur og áhættur sem almannavarnir á Íslandi gætu þurft að takast á við og viðbúnaður er skoðaður. Í kjölfar áhættuskoðunar almannavarna hafa margar almannavarnanefndir farið þess á leit við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra að hún vinni með umdæmunum að mótvægisaðgerðum og viðbragðsáætlunum vegna aðkallandi verkefna.
 
Vinna er þegar hafin vegna atburða sem taldir eru geta haft í för með sér mikla eða gífurlega áhættu og settar voru í fyrsta forgang í áhættuskoðuninni. Þar má nefna hættumat vegna eldgosa á landinu, viðbragðsáætlun vegna gróðurelda, viðbragðsáætlanagerð og æfingar vegna hópslysa bæði í siglingum og í umferðinni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.