Kosið í nýju sveitarfélagi 18. apríl

Kosið verður til sveitarstjórnar í nýju sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar fyrsta laugardag eftir páska. Sameiningin gengur formlega í gildi í kjölfar þeirra. Búið er að skipa undirbúningsstjórn og funda með starfsfólk fyrir þá vinnu sem framundan er þangað til.

Sveitarstjórnirnar skipuðu hver í sínu lagi þrjá fulltrúa í undirbúningsstjórnina auk þess sem þrír áheyrnarfulltrúar eru í henni til að tryggja aðkomu allra framboða sem nú eiga fulltrúa í sveitarstjórnunum. Á fyrsta fundi sínum ákvað undirbúningsstjórnin að kosið yrði til sveitarstjórn 18. apríl. Nýtt sveitarfélag tekur formlega til starfa í kjölfar þeirra, í lok apríl eða byrjun maí.

Undirbúningsstjórnin fundar aftur þann 9. desember. „Það er verið að kortleggja vinnuna fram að kosningum. Það verða myndaðir starfshópar. Þeir eru ekki fullmótaðir en þeir munu undirbúa stjórnsýslu nýs sveitarfélags.

Það þarf að kortleggja og skoða fjárhagslegan samruna, sameina bókhaldskerfi og skjalastjórnun, horfa til rafrænu stjórnsýslunnar, hugbúnaðar og tölvumála. Þetta er mikil vinna sem við munum nota desember til að teikna upp. Ég á ekki von á að starfshóparnir taki til starfa fyrr en í janúar.

Við í undirbúningsstjórninni erum byrjuð að vinna samþykktir fyrir nýtt sveitarfélag og svo er spurning verður staðið að því að velja nafn á nýja sveitarfélagið,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs og formaður undirbúningsstjórnarinnar.

Fjölsóttur starfsmannafundur

Sameiningin var samþykkt með miklum meirihluta í sveitarfélögunum fjórum í kosningum þann 26. október síðastliðinn. Sléttur mánuður er nú liðinn frá þeim. Fundað var með starfsfólki stjórnsýslu og stjórnendum stofnana sveitarfélaganna síðasta miðvikudag. „Hann var mjög vel sóttur og nær allir starfsmennirnir mættir. Við hvöttum starfsfólk til að koma á framfæri áhyggjum eða öðrum ábendingum. Andinn var góður og umræðurnar líka.

Við vildum halda svona fund sem fyrst til að upplýsa um stöðuna þannig að ekki færu að vakna efasemdir eða óróleiki. Það er mikil vinna framundan og henni lýkur ekki þegar nýtt sveitarfélag tekur við. Því er mikilvægt að virkja starfsfólk í þá vinnu sem framundan er og það mun koma mjög ákveðið inn í vinnu starfshópanna,“ segir Björn.

Mikill áhugi á sameiningunni

Björn er þessa stundina staddur í Reykjavík. Hann átti fundi í gær um fjármál nýs sveitarfélags, en erindi frá undirbúningsstjórninni til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um stuðning við sameininguna verður tekið fyrir á fundi sjóðsins á föstudag.

Þá mun Björn sitja í pallborði í dag á ráðstefnu Nordregio, stofnunar Norrænu ráðherranefndarinnar, um byggðarannsóknir, sem haldin er í Hörpu. Róbert Ragnarsson, sem verður áfram ráðgjafi undirbúningsstjórnarinnar líkt og hann var í sameiningarferlinu, var annar tveggja framsögumanna á hádegisfundi í Háskóla Íslands í gær um sameiningar sveitarfélaga.

Björn segir mikinn áhuga á sameiningunni sem nú er í gangi eystra. „Við verðum vör við að það er fylgst náið með því sem við gerum og hvort allt takist. Einkum er fylgst með heimastjórnunum en svo erum við líka að einfalda nefndakerfið og stjórnsýsluna með það að markmiði að kjörnir fulltrúar geti haft sveitastjórnarstarfið sem hlutastarf, það hefur verið valkostur í fæstum sveitarfélögum.“

Fulltrúar í undirbúningsstjórninni:
Aðalheiður Borgþórsdóttir, Seyðisfirði
Anna Alexandersdóttir, Fljótsdalshéraði
Bergþóra Birgisdóttir, Djúpavogi
Björn Ingimarsson, Fljótsdalshéraði
Gauti Jóhannesson, Djúpavogi
Helgi Hlynur Ásgrímsson, Borgarfirði
Hildur Þórisdóttir, Seyðisfirði
Jakob Sigurðsson, Borgarfirði
Jón Þórðarson, Borgarfirði
Kristjana Sigurðardóttir, Fljótsdalshéraði
Vilhjálmur Jónsson, Seyðisfirði
Þorbjörg Sandholt, Djúpavogi

Áheyrnarfulltrúar
Elvar Snær Kristjánsson, Seyðisfirði
Hannes Karl Hilmarsson, Fljótsdalshéraði
Stefán Bogi Sveinsson, Fljótsdalshéraði

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.