Kosið verður um prest í Hofsprestakalli

Biskupsstofa hefur staðfest að almenn prestskosning verði um nýjan sóknarprest í Hofsprestakalli sem nær yfir Hofs-, Skeggjastaða- og Vopnafjarðarsóknir. Ekki hefur er enn ljóst hvenær verður kosið en nýr prestur á að taka við um miðjan október.


„Fyrst og fremst er ánægjulegt hvað fólkið sýnir mikinn áhuga,“ segir Guðmundur Þór Guðmundsson, sviðsstjóri lögfræðisviðs Þjóðkirkjunnar.

Samkvæmt lögum getur fjórðungur atkvæðisbærra manna í prestakallinu óskað eftir prestskosningu innan tveggja vikna frá því staðan er auglýst. Um það bil helmingur atkvæðisbærra manna í Hofsprestakalli skrifaði undir slíka beiðni og skilaði inn áður en frestur til þess rann út í byrjun vikunnar.

Staðan var auglýst eftir að sér Stefán Már Gunnlaugsson, sem verið hefur sóknarprestur frá árinu 2005, var skipaður héraðsprestur í Kjalarnesprestakalli. Umsóknarfrestur er til 23. ágúst.

Guðmundur Þór segir ekki ljóst hvenær verði kosið. Allir umsækjendur um embættið sem uppfylla almenn skilyrði verða í kjöri. Málið er komið til kjörstjórnar sem ákveður kjördag.

Skipað verður í embættið frá 15. október 2017 til fimm ára. Sá sem hlýtur löglega kosningu mun sitja prestssetursjörðina Hofi í Vopnafirði.

Prestakallið samanstendur af Hofssókn með 136 sóknarbörn, Vopnafjarðarsókn með 511 og Skeggjastaðarsókn með 107. Í vetur var samþykkt að færa síðastnefndu sóknina frá Langanesprestakalli yfir í Hofsprestakall.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar