Skip to main content
Mynd úr safni frá Landsbjörgu.

Komu í veg fyrir að fólk legði á Fjarðarheiðina í gær

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. okt 2025 09:20Uppfært 22. okt 2025 09:25

Yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni lýsir ánægju með samstarf við björgunarsveitir og lögreglu um að koma í veg fyrir að ökumenn, sem komu með Norrænu til Seyðisfjarðar í gær, legðu á Fjarðarheiðina á sumardekkjum. Einn bíll var skilinn eftir þar í nótt. Óvissustigi vegna snjóflóða var lýst yfir á Fagradal.

Vegagerðin, lögreglan og björgunarsveitin Ísólfur sameinuðust í gær um svokallaða „mjúka lokun“ á Fjarðarheiði. Í því fólst að ökumenn á sumardekkjum voru varaðir við aðstæðum á heiðinni og ráðið frá ferðum áður en þeir lögðu á brattann.

Lögreglan talaði við ökumenn við höfnina meðan björgunarsveitin og Vegagerðin ítrekuðu skilaboðin við þá sem virtust ætla lengra. 

„Ég held við höfum örugglega snúið við 40 bílum í gær og komið í veg fyrir mikið vesen á heiðinni. Við teljum þetta því hafa reynst vel,“ segir Ársæll Örn Heiðberg, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni í Fellabæ.

Fastir bílar á Fjarðarheiði

Samkvæmt yfirliti Vegagerðarinnar er þæfingur á heiðinni og bílar fastir þannig að aka þarf um með gát. Einn bíll var skilinn eftir þar í gærkvöldi.

Mjúku lokuninni hefur ekki verið beitt í dag, þar sem snjólínan hefur lækkað þannig að gestum Norrænu eiga að vera aðstæður á heiðinni betur ljósar.

Gular viðvaranir í dag

Óvissustig vegna snjóflóðahættu tók gildi á Fagradal klukkan tíu í gærkvöldi. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni hefur hvorki verið tilkynnt um flóð þar né annars staðar á Austfjörðum eftir nóttina.

Engin útköll hafa enn verið hjá björgunarsveitum. Gular viðvaranir eru í gildi vegna norðaustanhríðar, bæði á Austurlandi og Austfjörðum. Á Austurlandi rennur viðvörunin út klukkan átta í kvöld en á Austfjörðum gildir hún til klukkan tvö í nótt.

Moksturstæki Vegagerðarinnar eru öll að störfum. Lokað er yfir Öxi, Breiðdalsheiði og Mjóafjarðarheiði en annars staðar er hálka, snjóþekja og skafrenningur.