Komnar með prjónadagbók á Karolina Fund

Þær Bylgja Borgþórsdóttir og Esther Ösp Gunnarsdóttir eru komnar á Karolina Fund þar sem þær hyggjast afla sér fjár til að gefa út Prjónadagbókin mín. Eins og nafnið gefur til kynna er um nokkurskonar verkdagbók að ræða þar sem prjónakonur geta skráð prjónaverk sín á persónulegan hátt.

Esther Ösp Gunnarsdóttir segir að fjáröflunin gangi mjög vel. Þær hafi sett sig á Karolina Fund í gær og séu þegar komnar með tæp 30% af því fjármagni sem þær þurfa til útgáfunnar á fyrsta sólarhringnum. Ætlunin er að safna 4.000 evrum eða um 650 þúsund kr.

„Bókin er raunar þegar tilbúin og komin í prentun en við erum að afla fjár til að geta leyst hana út úr prentsmiðjunni,“ segir Esther.

Þær stöllur hafa unnið saman s.l. fimm ár við að hanna og gefa út prjónauppskriftir að flíkum fyrir börn. Hefur sú starfsemi gengið undir nafninu Big Red Balloon. Nafnið skýrist af því að þær selja mikið erlendis.

„Fyrir utan að vera með texta og kynningu á okkar verkum á íslensku og ensku höfum við einnig látið þýða nokkrar uppskriftir okkar á norsku," segir Esther.

Í kynningu sinni á Karolina Fund kemur m.a. fram að Prjónadagbók sem þessi getur verið skemmtileg og falleg bók sem er í senn minningabók um þau verk sem þú hefur prjónað og uppflettibók með hagnýtum upplýsingum um verkin þegar þú þarft á þeim að halda.

„Við vitum að þau sem prjóna mikið gefa gjarnan stóran hluta af sínu prjónlesi frá sér án þess að skrá niður helstu upplýsingar. Þannig glatast oft mikilvæg gögn um þau verk sem unnin eru og erfitt að grafa upp þegar ráðast á í sama eða svipað verk,“ segir í kynningunni.

Mynd: Steinrún Ótta Stefánsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.