Kominn tími á að taka til

Frambjóðendur á Fljótsdalshéraði eru sammála um að ráðast verði í átak til hefta útbreiðslu rusls í sveitarfélaginu, einkum innan þéttbýlisins. Umhverfi og ásýnd snerta ýmsa þætti kosningabaráttunnar á Héraði.

Talsvert var spurt út í umhverfismálin á opnum framboðsfundi í Egilsstaðaskóla á mánudagskvöld. Nokkur umræða hefur verið um umhverfismálin í aðdraganda kosninganna og hafa frambjóðendur Héraðslistans farið út að safna rusli, eða plokka.

Kristjana Sigurðardóttir, sem skipar annað sæti listans, sagði að hver yrði að líta í sinn barm og sinna nærumhverfinu en ekki skella skuldinni á nágrannann. Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknarflokksins, kvaðst vonast til að hægt yrði að nýta vitundarvakninguna til að fá íbúa með í lið í tiltektinni.

„Það þarf ákveðna vitundarvakningu hjá íbúum sjálfum. Þeir missa ruslið frá sér og þar byrjar vandinn,“ sagði Gunnar Jónsson, Sjálfstæðisflokki.

Hrefna Sigurðardóttir frá Miðflokknum gerði ásýnd bæjarins að umtalsefni í framsöguræðu sínu en flokkurinn hefur heitið því að ráðinn verði garðyrkjufræðingur. „Við höfum sofnað á verðinum gagnvart grænum svæðum,“ sagði hún og.

Faðir hennar, Sigurður Ragnarsson sem er neðar á listanum, kom inn á iðnaðarsvæðin í lokaávarpi sínu. „Við höfum heyrt þetta ár eftir ár með þessi andskotans iðnaðarhverfi. Hættum þessu röfli og felum þau með gróðri.“

Metnaður í fráveitumálum

Fyrirhugaðar framkvæmdir við fráveitu á vegum Hitaveitu Egilsstaða og Fella hefur verið eitt stærsta kosningamálið á Héraði í vor. Nafnarnir Gunnar Jónsson frá Sjálfstæðisflokki og Gunnar Sigbjörnsson, Miðflokki, tókust á um það.

Gunnar Sigbjörnsson sagði að skort hefði á samráð í undirbúningi verkefnisins og svo virtist sem lokað hefði verið á einn möguleika án þess að skoða málin til enda. Þá sé dýrt að skipta um stefnu í fráveitumálum á tíu ára fresti.

Deilurnar hafa meðal annars snúist um hversu langt skuli ganga í hreinsun og veitingu fráveituvatns út í Lagarfljót. Gunnar gagnrýndi tilraunir til að reyna að fá Lagarfljótið skilgreint sem „viðtaka“ en ekki „viðkvæman viðtaka“ og sagði þær bera vott um skort á metnaði. Bæði Gunnar og Kristjana sögðu að umhverfið yrði að njóta vafans, hvaða lausn sem yrði fyrir valinu.

Gunnar Jónsson sagði „hart að heyra“ að ekki hefði verið haft samráð. Málið hefði verið kannað árum saman og komin hefði verið ákveðin lausn „til að stoppa þann þrotlausa sóðaskap sem fráveitumál okkar eru í dag því 70% fráveituvatns hefur farið óhreinsað í Eyvindará og Lagarfljótið.“

Kominn tími á að klára miðbæjarskipulagið

Aðspurðir um atvinnumál bentu flestir frambjóðendur á að klára yrði skipulag miðbæjarins á Egilsstöðum sem fyrst. Þá þyrfti einnig að bjóða upp á atvinnulóðir víðar í þéttbýlinu á Egilsstöðum og Fellabæ.

Gunnar Sigbjörnsson sagði að erfitt hefði verið að fá að sjá þá vinnu sem hefði verið í gagni við nýja skipulagið og framboðinu verið neitað um að fá greinargerðina með því. „Þetta á að vera leyndarmál þar til þeim sem halda utan um ferlið þóknast. Þetta er ekki einkamál einstakra bæjarstjórnarmanna heldur allra hér.“

Gunnar Jónsson sagði að bæjarstjórnin hefði unnið að því að undirbúa lóðir í Fellabæ við Valgerðarstaði. Þar hefði þurft að berjast við RARIK um að bjóða sambærilegt raforkuverð og í þéttbýlinu. Nafni hans Sigbjörnsson sagði að klára þyrfti deiliskipulag svæðisins og tryggja aðgengi að lóðunum með stofnbraut, rafmagni og fráveitu.

Gunnar Jónsson minntist einnig á nýútkomna innviðagreiningu sveitarfélagsins. Hún hefði því miður tekið of langan tíma í vinnslu en væri nú tilbúin og ætlaðar væru tíu milljónir í eftirfylgni með henni.

Nokkrir frambjóðendur komu inn á málefni dreifbýlisins, Aðalheiður Björt Unnarsdóttir, Framsóknarflokki, sagði í framsöguræðu sinni að nauðsynlegt væri að efla vetrarþjónustu þar og sérstakan stuðning barna til tómstundaiðkunar. Steinar Ingi sagði að tryggja yrði að fýsilegt væri að búa í dreifbýlinu. Þá kom hann inn á tækifæri í matvælavinnslu með að nýta bæði heitt og kalt vatn á svæðinu.

Tekjuaukning standi undir nýjum starfsmönnum

Bæði Miðflokkurinn og Framsóknarflokkurinn kynntu hugmynd um ráðningu atvinnu- og kynningarfulltrúa, að minnsta kosti tímabundið. Spurningu var beint til allra framboða um fjármögnum kosningaloforða.

Hrefna sagði að hægt væri að „spara sig í hel.“ Sveitarfélagið væri í samkeppni við önnur sveitarfélög um fólk og fólksfjölgun yrði fljót að greiða upp kostnað við störfin. Stefán Bogi sagði að tryggja þyrfti að innviðir sveitarfélagsins væru í lagi.

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins minntu á að árangur hefði náðst undanfarin ár í niðurgreiðslu skulda og framboðið hefði ekki „lofað stórkostlegum aukaútgjöldum.“ Áfram yrði sýnd ráðdeild og haldið þeirri stefnu að framkvæma fyrir eigið fé.

Steinar Ingi Þorsteinsson, oddviti Héraðslistans, var á svipuðum nótum. „Árangurinn hefur verið frábær en ekki sársaukalaus. Sagan hefur kennt okkur að stíga varlega til jarðar,“ sagði hann.

Sameining forsenda samgöngubóta

Í byrjun apríl voru kynntar niðurstöður skoðanakönnunar meðal íbúa sex sveitarfélaga á Austurlandi um hug þeirra til sameiningar sveitarfélaga. Íbúar á Héraði voru opnastir fyrir sameiningu og frambjóðendur voru spurðir út í hug sinn til sameiningar.

Þeir voru sammála um að fara strax í haust viðræður við Seyðfirðinga, Borgfirðinga og Djúpavogsbúa. Samhliða yrði ýtt á samgöngubætur. Gunnhildur Ingvarsdóttir frá Framsóknarflokki sagðist sjá Austurland fyrir sér í einu sveitarfélagi í framtíðinni.

Gunnar Jónsson sagðist hafa trú á að stærri heild myndi nýtast við að ná fram samgöngubótum og öðrum málefnum sem sækja þurfi til ríkisins. „Það er togast óvægilega á um þá fjármuni sem deilt er inn í fjórðunginn og þar má aldrei sofna á verðinum.“

Stefán Bogi sagði að ef menn sæju ekki mikinn málefnamun á framboðunum yrðu kjósendur að ákveða hverjum þeir treystu helst til verka. „Hverja viljið þið fá til að tala máli ykkar, sjá um hagsmunagæsluna, vinna vinnuna sem er ekki alltaf sýnileg gagnvart Alþingi, stofnunum og ráðuneytum.“

Sigurður Ragnarsson, Miðflokki, hvatti Héraðsbúa til að vera stoltari af sveitarfélaginu. „Mér finnst stundum vanta smá Borgfirðing í okkur. Fólk segist vera Borgfirðingar þótt það eigi bara langömmu í áttunda lið.“

Hann sagðist hafa orðið var við tal um að ekki væri hægt að kjósa Miðflokkinn út af gjörðum formannsins Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. „Hann er því miður fluttur í burtu en það hefði verið gott að hafa útsvarið hans.“

Sigrún Blöndal, fráfarandi oddviti Héraðslistans, sagðist hafa aflað sér meiri reynslu en á öðrum tímabilum lífs síns með að sitja í sveitarstjórn. Á þessum árum hefði mikill tími farið í að þrýsta á ríkið um aðgerðir. Hún fagnaði endurnýjun á listanum og að inn væri kominn kraftmikill hópur.

Horfa má á fundinn í heild sinni á vef Fljótsdalshéraðs.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.