Kirkjan skoðar að selja allnokkrar eignir á Austurlandi

Árlegt kirkjuþing fer fram um næstu helgi en fyrir þinginu liggja meðal annars tillögur um sölu fjölda jarða og eigna kirkjunnar. Þar á meðal nokkrar jarðir og eignir á Austurlandi.

Rekstur Þjóðkirkjunnar hefur verið erfiður síðastliðin ár og kirkjan farið í fjárhagslega endurskipulagningu sökum þess. Einn angi af þeirri vinnu er að skoða sölu á eignum en kirkjan á sem kunnugt er fjölda jarða um land allt og töluvert af húsnæði víða líka. Það er einmitt sala á yfir tuttugu eignum og jörðum sem kirkjuráð mælir með en tillögur ráðsins fara svo fyrir kirkjuþingið um helgina sem tekur lokaákvörðun.

Fimm af þeim eignum sem mælt er með að selja finnast á Austurlandi. Íbúðarhús að Hamrahlíð á Vopnafirði og Króksholti á Fáskrúðsfirði og þrjár kirkjujarðir; Skeggjastaðir í Bakkafirði, Desjarmýri á Borgarfirði eystri og Kolfreyjustaður á Fáskrúðsfirði.

Kirkjan sögð rýra grunnþjónustu þvert á stefnu

Hugsanleg sala eignanna hefur vakið upp úlfúð hjá bæði prestum og sóknarbörnum austanlands. Fimm þeirra skrifa umsögn við tillöguna um söluna á Kolfreyjustöðum þar sem þeim hugmyndum er harðlega mótmælt enda rýri það grunnþjónustu á svæðinu þvert á opinbera stefnu kirkjunnar. Þá valdi sala á prestbústöðum óánægju í samfélagi þar sem lengi hefur verið prestbústaður eins og hafi sýnt sig áður á Eskifirði og í Neskaupstað. Undir þetta skrifa séra Dagur Fannar Magnússon og séra Jóna Kristín Þorvaldsdóttir auk annarra.

Myndin af fyrrum kirkju á Stöðvarfirði. Hún tengist greininni ekki beint.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.