„Kemst eins nálægt því að upplifa bardaga og hægt er”

„Ég held að nýting á sýndarveruleikatækninni muni aukast mjög í miðlun á sögu og ýmsu öðru á næstu árum. Það er gaman fyrir okkur að vera í fararbroddi í þeim málum, en alveg sama hvaða tækni er nýtt þá skiptir innihaldið alltaf mestu máli, að hafa einhverju sögu að segja,” segir Borgfirðingurinn Áskell Heiðar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri sögusetursins, 1238 Baráttan um Ísland, sem staðsett er á Sauðárkróki.



Sögusetrið 1238 Baráttan um Ísland, segir sögu Sturlungaaldarinnar í gagnvirkri sýningu sem gengur skrefinu lengra en hefðbundnar fræðslusýningar. Með hjálp nýjustu tækni, í miðlun og sýndarveruleika, býðst gestum á öllum aldri að taka þátt og upplifa söguna sem aldrei fyrr. Sýningin byggir á sögum frá frægasta og blóðugasta kafla Íslandssögunnar, Sturlungaöldinni (1220 – 1264).

„Á þessu tímabili riðu hetjur um héruð og landið logaði í illdeilum og átökum. Stórir bardagar fóru fram, flestir einmitt hér í Skagafirði. Niðurstaða átakanna var síðan sú að Noregskonungur tók við völdum á Íslandi með Gamla sáttmála 1262,” segir Áskell Heiðar, en sýningin er glæsilegu 1.000 m2 rými.

„Sérstaða sérstaða sýningarinnar er sú að við nýtum nýjustu tækni, bæði viðbótarveruleika og síðan sýndarveruleika. Með hjálp tækninnar fær fólk að ferðast aftur í tímann og kemst eins nálægt því að upplifa bardaga og hægt er að gera án þess að taka beinlínis þátt í einum slíkum.”

Sýningin hugsuð sem ferðamannasegull
Aðspurður að því hvernig hugmyndin hafi komið til segir Áskell Heiðar; „Skagfirðingar hafa unnið með Sturlungasögu og sérstaklega bardagana, bæði Örlygsstaðabardaga og Haugsnesbardaga í gegnum árin, merkt sögustaði, gefið út kort og fleira í þeim dúr. Þetta tiltekna verkefni kom til í samtali Ingva Jökuls Logasonar (sem ólst upp á Neskaupsstað) og stjórnenda sveitarfélagsins hér í Skagafirði. Upphaflega hugmyndin var að búa til nýjan segul fyrir ferðafólk í Skagafirði og á undirbúningstímanum þróaðist hún töluvert og niðurstaðan varð þessi sýning.”

Áskell Heiðar segir viðtökurnar hafa verið mjög góðar. „Það sem mestu máli skiptir er að gestir okkar hafa tekið sýningunni vel, ekki síst sýndarveruleikahlutanum. Til viðbótar við sýninguna opnuðum við veitingastað og minjagripabúð í sama húsnæði og þetta hefur allt fallið mjög vel í kramið hjá þeim sem okkur hafa heimsótt. Við vitum að það mun taka tíma að koma okkur inn á kortið hjá ferðaskrifstofum og hjá ferðafólki, en við verðum þolinmóð og vinnum hörðum höndum að því að koma okkur á framfæri.”

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.