Katrín Jakobsdóttir: Þurfum að ræða hvernig við viljum hafa bólusett Ísland

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir algjöra samstöðu hafa verið um niðurstöðu ríkisstjórnarfundar, sem haldinn var á Egilsstöðum um dag, þar sem ákvörðun var tekin um að setja aftur á samkomutakmarkanir til að hindra útbreiðslu Covid-veirunnar. Hún segir nauðsynlegt að móta stefnu til lengri tíma um takmarkanir.

Í samtali við Austurfrétt eftir fundinn skýrði Katrín frá því að helstu niðurstöður fundarins væri að takmarka fjölda á samkomum við 200 manns í hverju hólfi, miða nálægð milli ótengdra aðila við einn metra og loka vínveitingastöðum á miðnætti. Grímuskylda verður við ákveðnar kringumstæður. Reglurnar taka gildi á miðnætti annað kvöld.

„Við fórum vel yfir þetta á fundinum. Þessar aðgerðir eru ekki ósambærilegar við þær sem eru víða á Norðurlöndunum. Við vitum að fjöldatakmörkunin hefur áhrif á útihátíðir framundan og fleiri viðburði. Nálægðartakmörkunin er varfærnisaðgerð, þetta er þó minna en tveir metrarnir.

Auðvitað hafa þessar aðgerðir mikil áhrif á fólk en við teljum ástæðu til að fylgja ráðleggingum sóttvarnalæknis og okkar vísindamanna til að reyna að tempra þessi smit.“

Reglurnar gilda til 13. ágúst. Katrín nefndi að sá tími myndi meðal annars leiða í ljós hvort alvarleg veikindi kæmu fram.

Aðspurð kvaðst hún telja að samstaða væri meðal þjóðarinnar um nýjar reglur. „Já, en ég skil að fólk kalli eftir auknum skýrleika og fyrirsjáanleika. Það er farin af stað stefnumótun til lengri tíma um hvernig við höfum bólusett Ísland. Við lærum eftir því sem fram vindur og ég viðurkenni að það kom mér á óvart hve mikið smitum hefur fjölgað. Afléttingarnar hafa þar áhrif.“

Í aðdraganda fundarins var rætt um að ágreiningur gæti verið innan ríkisstjórnarinnar um aðgerðirnar. Fundurinn stóð í um þrjá tíma. „Það er algjör samstaða um þessa niðurstöðu. Hún byggir á því sama og við höfum gert. Við höfum fylgt ráðleggingum sóttvarnalæknis að mestu og gerum það áfram, nema hann lagði til 1-2 metra fjarlægð eftir aðstæðum en í nafni skýrleika miðuðum við við einn metra.

Í ljósi bólusetninga erum við á allt öðrum stað en fyrir ári en við viljum vera varfærin áfram – eins og við höfum verið hingað til.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.