Karlsstaðir auglýstir til sölu: Settum þetta út í kosmósið

Jörðin Karlsstaðir í Berufirði hefur verið auglýst til sölu. Þar hefur undanfarin ár verið byggð upp lífræn ræktun, ferðaþjónusta og menningarstarf undir merkjum Havarí. Ábúendur reikna alveg eins með að söluferlið geti tekið talsverðan tíma.

„Við ákváðum að setja þetta út í kosmósið, svo stýrir lífið hlutunum áfram. Svona ferli getur tekið langan tíma og okkur liggur ekkert á,“ segir Berglind Häsler sem byggt hefur upp búskapinn á Karlsstöðum ásamt manni sínum Svavari Pétri Eysteinssyni, sem einnig er þekktur sem tónlistarmaðurinn Prins Póló.

Þau hafa verið með mörg járn í eldinum og bendir Berglind til dæmis á að mikið hafi verið að gera í tónlistinni og enn fleiri verkefni á döfinni. Staðan hafi verið orðin sú að þau hafi eiginlega haft of mikið orðið að gera.

Þau hafa síðustu mánuði verið með annan fótinn í Reykjavík en eru þó að undirbúa sumarið í Berufirði og bóka hljómsveitir í tónleikahald. Lokað hefur verið þar um hátíðarnar en opnað verður á ný 20. janúar.

Í sölulýsingu kemur fram að Karlsstaðir séu alls 135 hektarar að stærð, þar af 25 hektarar ræktuð tún og matjurtagarðar. Á jörðinni séu tvö íbúðarhús, annað byggt 1976, hitt 1927 og nýtt í ferðaþjónustu. Til viðbótar sé gistiheimili, vélageymsla sem breytt hafi verið í skrifstofu, matvælaframleiðsla með kæligeymslu og veitingasalur. Öll þessi hús hafa verið endurnýjuð mikið á síðustu fimm árum. Á jörðinni eru nokkur útihús í viðbót.

Alls er gistirými fyrir 42 manns í tveimur byggingum auk veislusals fyrir 100 manns. Hreindýraarður er á jörðinni, landið hefur hlotið vottun til lífrænnar ræktunar, á strandlengjunni er fuglalíf með vaxandi æðavarpi og á afrétti ágæt rjúpnaveiði. Ásett verð er 220 milljónir króna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar