Karl Óttar nýr bæjarstjóri í Fjarðabyggð

Karl Óttar Pétursson, lögmaður hjá Arion banka, hefur verið ráðinn nýr bæjarstjóri í Fjarðabyggð. Frá ráðningunni var gengið á fundi bæjarráðs í morgun.


Karl Óttar er 47 ára gamall og hefur undanfarin ár starfað sem forstöðumaður lögfræðisviðs Arion-banka. Hann er Austfirðingur hins vegar kunnur sem framkvæmdastjóri rokkhátíðarinnar Eistnaflugs en þeirri stöðu hefur hann gegnt frá árinu 2014.

Karl Óttar lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1995, með heimspeki sem aukagrein. Árið 2002 lauk hann svo embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands og hlaut árið 2011 löggildingu sem héraðsdómslögmaður.

Karl Óttar hefur starfað hjá Héraðsdómi Vestfjarða, Kaupþingi og nú síðast sem forstöðumaður lögfræðisviðs hjá Arion banka.

Karl Óttar er stúdent frá Menntaskólanum á Laugarvatni. Þar kom hann að stofnun pönksveitarinnar Saktmóðigur en hann er söngvari hennar.

Hann kemur til starfa hjá Fjarðabyggð í ágúst. Fráfrandi bæjarstjóri, Páll Björgvin Guðmundsson, lét af störfum fyrir viku og er Gunnar Jónsson staðgengill bæjarstjóra um þessar mundir.

Bæjarráð Fjarðabyggðar ásamt nýjum bæjarstjóra, Karli Óttari Péturssyni. Frá vinstri: Dýrunn Pála Skaftadóttir, Eydís Ásbjörnsdóttir, Karl Óttar Pétursson, Rúnar Gunnarsson og Jón Björn Hákonarson. Mynd: Fjarðabyggð.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar