Kalli Sveins sagði öllum upp

Image Öllum starfsmönnum Fiskverkunar Karls Sveinssonar á Borgarfirði var á fimmtudag sagt upp störfum. Karl segir samkeppnisaðila sína beita bolabrögðum með að nota ólögleg efni til að gera fiskinn hvítari.

 

Hjá fyrirtækinu starfa 15-20 manns og er það stærsti vinnuveitandinn á Borgarfirði. Karl er ósáttur við að aðrir saltfiskframleiðendur dæli fjölfosfötum í fiskinn til að gera hann hvítari. Efnið er bannað samkvæmt reglum Evrópusambandsins en Matvælastofnun hefur ekki gripið til aðgerða og segja að efnin séu ekki skaðleg mönnum.

Saltfiskiðja hefur bætt verkefnastöðu fyrirtækisins á veturna en framhaldið í vetur er óvíst. Því hefur Karl sagt upp starfsfólkinu.

Í yfirlýsingu sem Karl sendi frá sér segir að hann hafi fyrstu árin eftir að útflutningur var gefinn frjáls verið í hópi þeirra sem voru með besta fiskinn og kaupendur greitt eftir því.

Eftir að samkeppnisaðilarnir fóru að nota fosfötin fór að halla undan fæti. „Fiskurinn varð illseljanlegur nema með verulegum afslætti. Í október 2008 keyrði um þverbak og var ein sending verðfelld um 1,5 milljónir króna því fiskurinn var ekki sprautusaltaður með þessu efni. Eftir það gafst ég endanlega upp og hef ég ekki saltað fisk til útflutnings í eitt og hálft ár,“ segir í yfirlýsingu frá Karli.

Hann segist hafa kvartað ítrekað til starfsmanna Matvælastofnunar en talað þar fyrir daufum eyrum í fimm ár. „Ekkert gerðist fyrr en í maí 2009. Þá var öllum framleiðendum gefinn kostur á að koma þessu málum í lag og frestur gefinn til 1. september 2009 samkvæmt bréfi dagsettu 28. maí 2009. Síðan hefur ekkert gerst þrátt fyrir að stafmenn skoðunarstofa hafi sett efnanotkun á skoðunarskýrslur sem sendar eru til Matvælastofnunar. Tekjutap vegna aðgerðarleysis stofnunarinnar nemur hundruðum milljóna króna.“

Karl segist ætla að kvarta til Eftirlitsstofnunar EFTA og fara fram á opinbera rannsókn á starfsháttum Matvælastofnunar.

Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur, segir vanrækslu stofnunnarinnar „sláandi“ á bloggsíðu sinni. Í ljósi áminninga MAST til fiskframleiðenda í fyrra sé ljóst að ekki sé um yfirsjón að ræða „heldur ásetning gegn betri vitund.“

Með fosfötunum sé fiskurinn gerður hvítari og meðhöndlun hans auðveldari. Þau bæti ekki fiskinn. Í raun séu neytendur blekktir því minna sé um fisk en meira um vatn því fosfötin bindi vatnið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.