Kærleikssveit býður upp á knús á Eistnaflugi

Þungarokkshátíðin Eistnaflug hefst á Norðfiðri í kvöld en fyrstu gestirnir mættu á svæðið á mánudag. Eftir erfitt ár í fyrra veltur framtíð hátíðarinnar á aðsókninni í ár. Framkvæmdastjórinn, sem jafnframt er nýráðinn bæjarstjóri í Fjarðabyggð, er bjartsýnn enda sól í heiði.

„Ég er mjög spenntur fyrir hátíðinni, það er ekki annað hægt í þessu glæsilega veðri,“ segir Karl Óttar Pétursson, framkvæmdastjóri Eistnaflugs.

Hátíðin var fyrst haldin árið 2005 og festi sig strax í sessi sem árshátíð íslenskra þungarokkara. Með tímanum vakti hátíðin athygli með að fá til sín bæði þekktar alþjóðlegar hljómsveitir, útsendara plötufyrirtækja, blaðamenn og almenna gesti.

Treystum á að þungarokkarar sýni trú á hátíðinni

Hátíðin gekk hins vegar erfiðlega í fyrra og á henni varð umtalsvert fjárhagslegt tap sem veturinn var nýttur til að greiða úr. „Hátíðin í ár skiptir máli því ef enginn kemur þá eru það skilaboð um að þetta sé ekki málið. Við treystum hins vegar á að þungarokkarar sýni að þeir hafi trú á hátíðinni og vilji að hún haldi áfram, að hátíðin í fyrra hafi bara verið einstakt tilfelli.

Gestirnir eru að tínast inn, þeir fyrstu mættu á mánudag. Vandamálið við Íslendinga er að þeir kaupa miðana á síðustu stundu, margir kaupa við hurð, en við seldum alla VIP miðana upp á örskotsstundu.“

Sýningargluggi fyrir íslenskar sveitir

Von er á um 100 almennum erlendum gestum í ár auk fulltrúa erlendra þungarokkshátíða, útgáfufyrirtækja og blaðamanna sem fyrr. „Michael Barberian, eigandi Season of Mist kemur annað hvert ár og hann mætir í ár. Næsta skref verður að styrkja enn frekar erlendu tengslin þannig við fáum þá erlendu gesti sem við eigum að fá.“

Hátíðin hefur árum saman verið vettvangur fyrir íslenskar þungarokkshljómsveitir til að koma sér á framfæri gagnvart erlendum útsendurum. Í fyrra vakti sveitin Une misére mikla athygli enda hefur hún spilað erlendis síðustu mánuði. Aðspurður um efnilegar íslenskar sveitir í ár bendir Karl á Devine Defilement en báðar sveitirnar spila á morgun.

Öfundaðir af Anathemu

Af helstu sveitum ársins má nefna Kreator sem er stórt og áhrifamikið í alþjóðlegu þungarokkssenunni. Í kjölfar þeirra á laugardagskvöld kemur færeyska sveitin Týr sem varð fræg hérlendis árið 2002 með útgáfu sinni af Orminum langa. „Það hafa margir spurt um þá sveit,“ segir Karl Óttar.

Sólstafir spila í 1,5 tíma á föstudagskvöld en þeir eru nýkomnir heim af Hellfest í Frakklandi þar sem þeir spiluðu fyrir 20 þúsund áhorfendur.

Strax á eftir þeim mætir sveitin Anathema á svið. „Það er fræg þungarokkssveit sem fært hefur sig yfir í aðgengilegri tónlist og hætti að spila á þungarokkshátíðum. Ég hef heyrt í stjórnendum annarra hátíða sem öfunda okkur þess vegna yfir að hafa fengið hana en Anathema kemur því Sólstafir eru þekktir og meðlimi Anathema langaði að spila með þeim.“ Eins og undanfarin ár lýkur hátíðinni á partýsveit, sem að þessu sinni er Gus Gus.

Spenntur fyrir bæjarstjórastarfinu

Eftir erfiðan vetur hefur ýmislegt verið gert til að efla enn frekar stemminguna á hátíðarsvæðinu. „Við verðum fleiri sem komum að hátíðinni og gerum meira. Við verðum með Kærleikssveit sem fer um svæðið í bolum sem á stendur „Knúsaðu mig.“ Við viljum undirstrika náungakærleikinn sem ríkir á Eistnaflugi, það eru engir fávitar og allir vinir.“

Þessi stemming varð þess valdandi að Karl Óttar sótti um stöðu bæjarstjóra Fjarðabyggðar og var valinn úr hópi umsækjenda. „Maður vill búa í umhverfi sem þessu. Þær móttökur sem Eistnaflug hefur fengið eru ekki sjálfsagðar. Þetta er spennandi verkefni og ég er þakklátur fyrir að menn hafi treyst mér fyrir því.“

Gert er ráð fyrir að Karl Óttar taki við starfinu í ágúst en það hefur þegar vakið mikla athygli að söngvari í pönksveit verði bæjarstjóri. Karl kemur sjálfur fram á Eistnaflugi þegar Saktmóðigur stígur á svið snemma sem önnur sveit á föstudag. „Ég hef ekki fundið annað en jákvæðni síðan það var gefið út að ég yrði bæjarstjóri. Ég held ég hafi aldrei eignast fleiri vini á Facebook.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.