Jón Björn: Orkugjafar framtíðarinnar verða fjölbreyttir

jon_bjorn_skulason_samgongufundur.jpgFjölbreytni orkugjafa samgöngutækja eykst í framtíðinni. Þetta er mat Jóns Björns Skúlasonar, verkefnisstjóra hjá Grænu orkunni. Um alla Evrópu prófa menn sig áfram með mismunandi hvata fyrir bifreiðaeigendur til að skipta um orkugjafa.

 

Þetta kom fram í máli Jóns Björns á málþingi um vistvænar samgöngur sem haldið var á Reyðarfirði fyrir skemmstu.

„Það verður enginn einn orkugjafi sem skiptir máli. Þetta verður háð auðlindum á hverju svæði fyrir sig,“ sagði Jón.

Hann kynnti ýmsar ívilnanir sem íslensk yfirvöld hafa þegar ráðist í til að hvetja bifreiðaeigendur til að nota bíla sem menga minna. Þar má nefna lægri skatta á bifreiðar sem losa minni koltvísýring út í andrúmsloftið. Slíkt hafi þegar breytt innkaupastefnu bílaleiga.

Jón benti einnig á bifreiðaeigendur þurfi ekki að skipta um bíla. Þeir geti gripið strax til aðgerða á þeim bílum sem þeir eigi. Biðlistar séu hjá bifreiðaverkstæðum eftir metanbúnaði og vélahitarar með vetni leiði til 16% eldsneytissparnaðar.

Ýmsar tilraunir eru einnig í gangi í Evrópu. „Vistvænar samgöngur eru forgangsverkefni hjá Evrópusambandinu og það er hægt að fá mikið fjármagn í slík verkefni þaðan. Á Arlanda-flugvelli í Svíþjóð fá vistvænir leigubílar forgang og miðborg Lundúna er búið að loka fyrir bensínbílum nema gegn gjaldi. Það hefur gengið vel og fleiri borgir ætla að fylgja í kjölfarið. Sambærilegt bann er þegar gengið í gildi í Amsterdam.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.