Jarðgöng fyrst eða vegagerð? Klofningur í stjórn SSA

vegaframkv_web.jpgStjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) klofnaði í atkvæðagreiðslu um hvort setja ætti gerð jarðganga eða vega í forgang í fjórðungnum. Jarðgöngin urðu ofan á í vali um forgangsröðum verkefna innan landshlutans fyrir fjárfestingaráætlun ríkisins á næsta ári.

 

Ríkisstjórn Íslands óskaði í sumar eftir hugmyndum frá sveitarstjórnum og landshlutasamtökum um forgangsröðun verkefna fyrir fjárhagsáætlun á næsta ári. Við lokafrágang stjórnar SSA urðu sjö verkefni eftir.

Að lokum fór svo að jarðgangnagerð var sett í fyrsta skipti. Þar er lögð áhersla á Norðfjarðargöng en að einnig verði horf til Seyðisfjarðar-, Lónsheiðar og Vopnafjarðarganga. Í bókun stjórnar SSA segir að þessi fjárfesting megi ekki verða á kostnað annarra fjárfestinga í vegagerð.

Þar er verið vísað til almennrar vegagerðar, sem varð í öðru sæti. Uppbygging vegar um Öxi er þar efst á blaði en vegagerð ásamt vegagerð um Skriðdal og Berufjarðarbotn.

Stjórnin klofnar

Á fundinum lagði Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps, til að víxlað yrði á þessum verkefnum þannig vegagerðin yrði ofar á blaði. Auk hans studdi Sigrún Blöndal, fulltrúi minnihlutans á Fljótsdalshéraði, og Þórunn Egilsdóttir, Vopnafirði, tillöguna. Í meirihlutanum voru Valdimar O. Hermannson, Fjarðabyggð, Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar á Fljótsdalshéraði, Páll Baldursson frá Breiðdalsvík og Arnbjörg Sveinsdóttir, Seyðisfirði.

Í bókun, sem Gauti lagði fram eftir atkvæðagreiðsluna, áréttar hann þá skoðun sína að „með þessari afgreiðslu sé stjórn SSA ekki að bregðast við eins og til var ætlast og sé jafnframt að kasta frá sér tækifæri til að hafa bein áhrif á forgangsröðun verkefna í fjórðungnum hvort heldur þau eru á sviði samgangna, menningar eða mennta.“

Önnur verkefni

Fjögur önnur verkefni eru á listanum. Í þriðja sæti er markaðssetning flugvallarins á Egilsstöðum, einkum til millilendingar. Áhersla er á að ráðinn verði markaðsstjóri til verksins.

Uppbygging þekkingarsetra er fjórði liður en þar verði lögð sérstök áhersla á Jarðfræðisetur á Breiðdalsvík og Mennta- og menningarsetur á Vopnafirði.

Þar á eftir kemur þróun úrvinnslu á hráefnum, einkum áli og sjávarafurðum. Ráðnir verði tveir verkefnastjórar sem vinni að þróun þeirra verkefna sem komið hafa fram, til dæmis á Seyðisfirði og í Fjarðabyggð.

Uppbygging Ríkharðssafns á Djúpavogi er sjötta á listanum og neðst á listanum er hvatning til að flytja stjórnsýslu og ákvarðanatöku um nýtingu hreindýrastofnsins til Austurlands.

Í fundargerð kemur fram að Jón Þórðarson, sveitarstjóri Borgarfjarðarhrepps, gagnrýndi valið á verkefnunum og talið að menn hefði átt að ganga „mun lengra velja metnaðarfyllri og fjárfrekari verkefni“ en þau seinustu fjögur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.