Íþróttahúsið opnað fyrir gesti Eistnaflugs vegna hvassviðris

Skipuleggjendur rokkhátíðarinnar Eistnaflugs í Neskaupstað hvöttu gesti á hátíðartjaldsvæði á tíunda tímanum í kvöld til að flytja sig inn í íþróttahúsið vegna hvassviðris. Björgunarsveitin vaktar svæðið en engin tjöld hafa fokið enn sem komið er.

Að sögn Daða Benediktssonar, formanns björgunarsveitarinnar Gerpis, byrjaði að hvessa seinni partinn í dag. Samkvæmt gögnum Veðurstofunnar mældist meðalvindur upp á 15 m/s og 28 m/s í hviðum um kvöldmat.

Vindurinn gekk síðan niður en virðist nú vera að aukast aftur. „Það gengur á með rokum og er hvasst. Þetta er ekkert brjálað en heldur ekki mjög tjaldvænt, ekki frekar en íslenskt rok er yfirleitt,“ segir Daði.

Gestir hátíðarinnar eru á tveimur tjaldsvæðum og kemur vindurinn harðar niður á sérstöku hátíðarsvæði úti á Bökkum. Þar eru um 30-40 tjöld og segir Daði aðeins þau öflugustu geta staðið af sér vindinn óstudd. Einhver tjöld eru í skjóli bakvið bifreiðar eða annað slíkt sem verndar þau.

Engin tjöld hafa fokið en nokkur lögðust undan vindinum og voru felld. Íþróttahúsið hefur verið opnað og í tilkynningu á Facebook-síðu hátíðarinnar eru „allir gestir á tjaldsvæði beðnir um að flytja sig í skjól.“

Daði segir hafa verið ákveðið að opna íþróttahúsið í tíma frekar meðan hátíðargestir væru ferskir heldur en þurfa mögulega að standa í aðgerðum í nótt þar sem spáð er hvassviðri fram eftir nóttu. „Vonandi fer vel um alla í nótt. Það verður örugglega gott partý í íþróttahúsinu!“ segir Daði að lokum.

Frá Eistnaflugi. Mynd úr safni.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.