„Ísland er spillt land og stjórnsýslan veikburða“

Misskipting eigna í íslensku samfélagi er megininntakið í 1. maí ávarpi AFLs Starfsgreinafélags í ár en yfirskrift þess er „Það er nóg til.“

Búið er að birta ávarpið á heimasíðu félagsins, en vegna samkomutakmarkana falla hátíðahöld í tilefni 1. maí niður á morgun.

Í ávarpinu segir að mikil eignatilfærsla hafi orðið í samfélaginu með framsali kvótaréttar síðastliðinn. Þannig hafi nokkrir aðilar efnast og nýtt auðinn til að kaupa sig til áhrifa í samfélaginu.

„Ísland er spillt land – og stjórnsýslan veikburða. Við höfum ef til vill lifað í þeirri barnatrú okkar að á Íslandi sé ekki spilling og engin stéttskipting. Atburðir liðinna ára færa okkur sanninn um að svo er ekki,“ segir í ávarpinu.

Nefnt er hvernig stórfelld undanskot skatta hafi veðri afhjúpuð með Panamaskjölunum á sama tíma og skattbyrði lægri tekjuhópa var aukin. „Íslenskt lág-og meðallaunafólk er með fjórðu hæsta skattbyrði sem þekkist í Evrópu á meðan íslenskir auðmenn eru með lægstu skattbyrði allra norðurlandaþjóðanna. Skattbyrði nágrannþjóða er skýrð með sterku velferðarkerfi en velferðarkerfið á Íslandi er ekki sterkt og það hriktir í grunnstoðum þess.“

Sundruð alþýða

Harðlega er deilt á Alþingi sem sagt er hafa veikt velferðarkerfið og eftirlitskerfið svo það geti ekki lengur tekið á fjármálabrotum.

„Þetta gerist aðallega af því að auðstéttin á marga fulltrúa á alþingi en launafólk enga. Fyrir kosningar eru margir sem vilja vera fulltrúar launafólks – en eftir kosningar gleymist það að mestu. Við sem launafólk höfum reynst lin í eigin baráttu. Þau okkar sem teljum okkur vera félagshyggjufólk – dreifum okkur í marga flokka og flokksbrot – öll þykjumst við þekkja hinn eina rétta sannleika og ráðumst heiftarlega að öðru „félagshyggjufólki“ sem mögulega hefur annan „sannleika“.

Aðrir í okkar hóp sem trúa á athafnafrelsið og frjálshyggjuna elta auðmenn og bíða þolinmóð eftir brauðmolunum sem eiga að hrjóta af gnægtaborði yfirstéttarinnar. Svo er það hófsemdarfólkið sem heldur að með því að velja alltaf að gera engar breytingar – sé það að stuðla að stöðugleika. En ef núverandi ástand er vaxandi misrétti þá þýða engar breytinga – vaxandi misrétti.

Á meðan alþýða manna skiptist þannig í ótal fylkingar fylkja auðmenn liði og kaupa sér talsmenn bæði opinberlega og á leynd. Erindrekar auðmanna gæta hagsmuna þeirra á Alþingi og fyrir dómstólum og í stjórnsýslu á meðan hagsmunir alþýðufólks eru eins og hver önnur skiptimynt í baráttunni um völdin. Þetta gerist af því við leyfum því að gerast.“

Hver borgar viðspyrnuna?

Í morgun var kynntur nýjasti aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar til að mæta áhrifum Covid-19 faraldursins. Þær aðgerðir hafa kostað ríkissjóð hundruð milljarða. Í ávarpinu er velt upp hvernig þeim halla verði mætt.

„Það verður athyglisvert að sjá hvort stjórnmálamenn þora þá að reyna að sækja fé til auðmanna í gegnum skattakerfið eða hvort ráðist verður að velferðarkerfi landsins og framlög til tryggingamála, heilbrigðismála og menntamála verða skert og skattar á launafólk hækkaðir.

Það verður okkar verkefni á næst mánuðum að krefja vongóða frambjóðendur um skýr svör og veita svo stjórnvöldum aðhald. Vandamálið er bara að hér á landi reiknum við öll með því að stjórnmálamenn segi ósatt og standi ekki við fyrirheitin. En við kjósum þau samt aftur. Við þurfum ekki að kenna öðrum um það hvernig málum er háttað hér á landi. Okkur dugar að horfa í spegil.

Það er nóg til – við þurfum bara að skipta því betur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.