„Impassable“ skipt út

Vegagerðin ætlar á þessu ári að skipta út lokunarskiltum með orðinu „impassable“ sem ruglað hafa einhverja ferðamenn. Björgunarsveitarmaður á Breiðdalsvík telur hægt að veita ókunnugum ferðamönnum mun betri upplýsingar en nú er gert.


„Ég sagði við viðkomandi að þau hefðu farið framhjá lokunarskilti sem hefði náð yfir hálfan vegin og það verið með blikkljósi.

Svarið sem ég fékk var að það hefði verið með merkingum á íslensku, sem var reyndar ekki rétt og þau ekki skilið það. Fólk er misvel læst á ensku,“ segir Helga Hrönn Melsteð, björgunarsveitarkona á Breiðdalsvík.

Hún og maður hennar,Ingólfur Finsson fóru um 50 sinnum upp á Breiðdalsheiði eða Öxi til að aðstoða ferðamenn í vandræðum og útköllin það sem af er þessum vetri eru orðin 40. Eitt slíkt var aðfaranótt þriðjudags og eftir það óskaði Helga eftir bættum upplýsingum til ferðamanna.

Á lokunarskiltunum hefur til þessa staðið „impassable“ sem þýðir ófært en Helga telur betra að nota orðið „closed“ sem er mun algengara og þýðir einfaldlega lokað.

Vegagerðin er sama sinnis. G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi segir að til standi að skipta út „impassable“ fyrir „closed.“ Fyrrnefndu skiltin eru ekki lengur framleidd en ekki hefur verið gengið í að skipta þeim markvisst út. Að því sé stefnt á árinu.

Helga bendir á að það hafi gefist vel að koma upp skilti með „closed“ innst í Breiðdal. Fleira þurfi hins vegar til.

„Fólk hugsar með sér að það þurfi að komast yfir og þetta er eina leiðin sem það veit um því sjónarhornið í GPS tækinu eða símanum er ekki víðara. Það er enginn lengur með kort í bílnum en á þessa staði þyrfti kort sem sýnir að önnur leið er í boði.“

Fleiri ástæður eru hins vegar fyrir útköllunum en bara ófærð. Svartaþoka skefldi marga ferðalanga á Öxi í haust. „Það er gisið á milli stika þannig fólk sér ekki þá næstu. Ég hef aldrei séð jafn þétta þoku og þarna í haust. Við vorum oft lengi á milli stika.“

Mynd: Helga Hrönn Melsteð

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.