Illa farið með gott kjöt?

dv_hreindyr_screenshot.jpg

Nauðsynlegt er að koma hreindýrum, sem veidd eru, sem fyrst í kælt rými til að tryggja gæði kjötsins. Mynd, sem birtist af felldu dýri á Egilsstöðum í byrjun vikunnar, hefur vakið upp spurningar um meðferð á kjötinu.

 

Myndin, sem fréttavefur DV birti á mánudag , sýnir hauslausan skrokk dýrsins á bílkerru utan við verslunarkjarna á Egilsstöðum. Hermt er að veiðimennirnir hafi skotist þar inn til að fá sér að borða.

En fleira kemur í ljós þegar myndin er betur skoðuð og hafa menn, sem Austurfrétt hefur rætt við, haft á orði að þar sé „illa farið með gott kjöt.“

Bjórinn er enn á dýrinu og svo er að sjá að innyflin hafi ekki verið fjarlægð úr því, annars væri það fallið saman. Veiðimenn reyna oftast að fjarlægja bjórinn og innyflin sem fyrst.

„Það má ekki líða langur tími frá aflífun og þar til innyflin eru tekin. Einnig skiptir miklu máli að koma dýrinu sem fyrst í kælt rími því það hægir á örveruvexti,“ segir Aðalbjörn Jónsson, kjötiðnaðarmeistari hjá Snæfelli kjötvinnslu á Egilsstöðum.

Hann sagðist reyndar ekki hafa séð myndina af dýrinu á Egilsstöðum en þetta væru viðteknar venjur við meðferð á hreindýrakjöti. „Menn eiga að gera að dýrinu sem fyrst og koma því í kælt rými.“

Nokkrar umræður hafa einnig verið um notkun fjórhjólsins við veiðarnar. Samkvæmt reglum má ekki nota fjórhjól við veiðar en notkun götuskráðra fjórhjóla er samt leyfileg séu þau á skráðum slóðum.
 
Mynd: Skjáskot af vef DV 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.