Íbúaþing á Borgarfirði um helgina

Verkefninu Brothættar byggðir verður hleypt af stokkunum á Borgarfirði eystra um helgina með íbúaþingi. Þingið er ætlað að vera veganestið fyrir verkefnið sem stendur í allt að fjögur ár.

Þingið stendur í tvo daga og er ekki fyrirfram mótuð dagskrá, heldur geta allir viðstaddir stungið upp á umræðuefnum, sem síðan eru rædd í smærri hópum. Fundað verður frá 11-16 á morgun laugardag og 11-15 á sunnudag. Ekki er nauðsynlegt að vera alla helgina, heldur er hægt að taka þátt í skemmri tíma.

Aðferðin kallast Opið rými, eða Open Space á ensku, á sér rúmlega 30 ára sögu og hefur gefist vel á íbúaþingum sem þessum. Umsjón með íbúaþinginu hefur Sigurborg Kr. Hannesdóttir, hjá ILDI.

Borgarfjörður var samþykktur inn í brothættar byggðir í ágúst. Byggðastofnun hefur yfirumsjón með verkefninu. Verkefnið miðar að því að aðstoða byggðir sem er í bráðum vanda vegna fólksfækkunar og erfiðleika í atvinnulífi.

Markmið þess er meðal annars að fá fram skoðanir íbúanna sjálfra á framtíðarmöguleikum byggðarinnar og leita lausna á þeim í samvinnu við fleiri aðila. Auk heimamanna og stofnunarinnar koma Austurbrú og Samband sveitarfélaga á Austurlandi að verkefninu á Borgarfirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar