Íbúar og farþegar Norrænu minntir á að gæta að fjarlægðarmörkum

Farþegar sem koma Norrænu til Seyðisfjarðar hafa verið duglegir að leita eftir upplýsingum um hvernig þeir eigi að haga sér eftir komuna til landsins. Sýnatökuteymi er komið til Færeyja og á að ná að klára verk sitt áður en ferjan kemur til Seyðisfjarðar í fyrramálið.

Tíu eru í teyminu að þessu, starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) ásamt tæknifólki. Byrjað verður að skima þegar Norrænan er komin inn á svokallað aðlægt belti, 24 sjómílur frá grunnlínu landhelginnar. Vonast er til að á teyminu takist að ljúka verki sínu á þeim tíma sem líður frá því ferjan kemur inn á það svæði og þar til hún leggst að bryggju.

Taka þarf sýni úr rétt um fimm hundruð farþegum, nokkru fleiri en í síðustu ferð. Þeir er dvalið hafa í Færeyjum, á Grænlandi eða Íslandi síðustu fjórtán daga eða eru fæddir árið 2005 eða síðar þurfa ekki í sýnatöku.

Senda þarf sýnin suður til Reykjavíkur til greiningar og eiga niðurstöður að liggja fyrir innan 12 tíma frá komu ferjunnar. Farþegarnir fara hins vegar strax í land, sumir þeirra beint í matvöruverslanir eystra til að birgja sig upp sem hefur vakið upp spurningar meðal íbúa.

Við komuna til landsins fá farþegar afhent blað með upplýsingum um hvernig þeir eigi að haga sér fyrstu tímana á landinu. Þar er þeim meðal annars ráðlagt að nota ekki almenningssamgöngur, halda kyrru fyrir á áfangastað og heimili og forðast náin samskipti, svo sem faðmlög og handabönd í það minnsta þar til niðurstöður skimunarinnar liggja fyrir.

Í leiðbeiningunum er einnig að finna netfang þangað sem hægt er að senda nánari fyrirspurnir. Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi, segir reynsluna hafa verið þá að farþegar ferjunnar séu duglegir að nota það.

Ekki eru gerðar athugasemdir við að þeir fari í verslanir til að kaupa nauðsynjar, enda gæti þeir að fjarlægðarmörkum. „Farið er fram á það í leiðbeiningum að þeir haldi fjarlægð og haldi samskiptum við aðra í lágmarki. Farþegar hafa ekki sýnt merki um veikindi við sýnatöku og ekki talið líklegt að þeir sé smitandi sýni þeir ekki slík merki. Líkur á smiti eru því taldar afar litlar þann stutta tíma sem beðið er eftir niðurstöðum skimunarinnar,“ segir Kristján Ólafur.

Leiðbeiningarnar ganga í báðar áttir og hefur aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands ítrekað minnt Austfirðinga á að gæta vel að sér. „Þetta gengur í báðar áttir og árangursríkast að allir gæti að sér, heimamenn ekki síður en farþegar, fylgi reglum og leiðbeiningum um hæfilega fjarlægð sérstaklega í þessu tilviki en einnig um handþvott og að spritta snertifleti svo dæmi séu tekin og verður ekki of oft áréttað. Það á allt að ganga vel ef við höldum áfram á þeirri braut,“ segir Kristján Ólafur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.