Orkumálinn 2024

Íbúar Austurlands fá 40% afslátt af flugi til Reykjavíkur

Íbúar á Austurlandi munu fá 40% afslátt af flugmiðum til og frá Reykjavík. Þetta kom fram í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á blaðamannafundi í flugstöðinni á Egilisstöðum sem nú stendur yfir.

Afslátturinn, sem kallast Loftbrú.is , er bundinn við þá sem eiga lögheimili í fjórðungnum og nær til þriggja ferða, fram og til baka, á hverju ári.

Í tilkynningu frá Samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytinu fyrir fundinn segir að Loftbrú veiti afsláttarkjör til þeirra sem eiga lögheimili á landsbyggðinni fjarri höfuðborgarsvæðinu og á eyjum. Fyrir utan Austurland á þetta við um Vestfirði, Norðurland, Höfn á Hornafirði og Vestmannaeyjar. Alls nær afslátturinn til um 60 þúsund íbúa.

„Markmiðið með verkefninu er að bæta aðgengi íbúa á landsbyggðinni að miðlægri þjónustu og efla byggðir með því að gera innanlandsflug að hagkvæmari samgöngukosti. Afsláttarkjörin koma þeim til góða sem vilja nýta margvíslega þjónustu og afþreyingu á höfuðborgarsvæðinu og til að heimsækja ættingja og vini. Loftbrú er ætluð fólki í einkaerindum til höfuðborgarinnar en ekki fyrir ferðir í atvinnuskyni eða hefðbundnar vinnuferðir,“ segir í tilkynningunni.

Ennfremur segir að fullur afsláttur (40%) er veittur hvort sem valið er afsláttarfargjald eða fullt fargjald. Út árið 2020 gilda afsláttarkjörin fyrir eina ferð til og frá Reykjavík.

Til að nýta Loftbrú auðkennir fólk sig á Ísland.is með rafrænum skilríkjum og þeir sem eiga rétt á Loftbrú fá yfirlit yfir réttindi sín. Þeir sem vilja nýta afsláttinn sækja sérstakan afsláttarkóða sem notaður er á bókunarsíðum flugfélaga þegar flug í áætlunarflugi er pantað.

Kostnaður ríkissjóðs er áætlaður 600 milljónir kr. á ársgrundvelli vegna afsláttarfargjaldanna. Á þessu ári verður hann um 200 milljónir kr.

Réttlætismál

„Í mínum huga er Loftbrú ein að mikilvægari byggðaaðgerðum sem ráðist hefur verið í og með því er tekið stórt skref til að jafna aðstöðumun þeirra sem búa annarsstaðar en á suðvesturhorninu. Það er mikið réttlætismál að þeir sem búa fjarri höfuðborginni og vilja og þurfa að sækja þjónustu þangað fái niðurgreiðslu á ferðum sínum með flugi", segir Sigurður Ingi Jóhannsson.

"Ég er sérlega ánægður að sjá afsláttarkjörin verða að veruleika en verkefnið hefur verið á stefnuskrá minni síðan ég kom í ráðuneytið. Fyrirmyndin var sótt til nágranna okkar Skota en við höfum nú útfært verkefnið á okkar hátt og gert aðgengilegt í takt við áherslur um stafræna þjónustu hins opinbera.“ 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.