Orkumálinn 2024

Íbúar áminntir um að læsa húsum og bílum

Lögreglunni hefur ekki enn tekist að hafa hendur í hári þeirra sem grunaðir eru um að hafa brotist inn í hús í Fellabæ um miðjan mánuðinn. Þjófagengi hafa hrellt íbúa víða um land í sumar.

Austurfrétt greindi frá því nýverið að brotist hefði verið inn í tvö hús í Fellabæ. Hjá lögreglunni á Austurlandi fengust í dag þær upplýsingar að málið væri enn í rannsókn og enginn væri með stöðu grunaðs.

Jónas Wilhelmsson, yfirlögregluþjónn, segir að nokkuð hafi borið á því í sumar að þjófagengi fari á milli staða. Spurnir af þeim hafa borist úr fleiri landshlutum en í júní voru tveir einstaklingar úr slíku gengi handteknir eystra.

Slík þjófagengi eru vel þekkt úti í Evrópu og hafa íslensk lögregluyfirvöld verið í samstarfi við Europol vegna málanna. Hérlendis hefur borið á slíkum gengjum undanfarin tvö sumur.

Þjófarnir hafa þann háttinn á að að banka upp á og fara inn ef enginn kemur til dyra. Séu þeir svo óheppnir að mæta húsráðanda þá segjast þeir vera að leita gistingar og koma sér út.

Þjófarnir reyna að lágmarka öll verksummerki, meðal annars með að fara aðeins inn í ólæst hús. Þá steli þeir ekki endilega af þeim stöðum sem séu augljósir sem veldur því að heimilisfólk tekur ekki eftir að verðmæti þess séu horfin fyrr en nokkrum dögum eftir innbrotið. Lögreglan beinir því til íbúa að læsa húsum sínum og bílum.

Jónas segir að lögreglunni hafi einnig borist til eyrna að verið sé að fara á milli húsa og taka myndir af þeim. Slík aðferð sé þekkt hjá þjófagengjunum en lögreglan hafi ekki haft afskipti af slíkum einstaklingum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.