Orkumálinn 2024

Íbúar á Breiðdalsvík langeygir eftir malbikun gatna

Íbúar á Breiðdalsvík komu saman síðasta þriðjudagskvöld og frömdu gjörning til að vekja athygli á bágbornu ástandi gatna bæjarins. Þeir telja að ekki hafi verið staðið við fyrirheit sem gefin voru þegar Breiðdalshreppur sameinaðist Fjarðabyggð árið 2018.

„Við höfum verið þolinmóð en erum nú langeyg eftir því sem lofað var við sameininguna. Það sem ýtti við okkur var að við fengum fregnir af því að ekki stæði til að gera neitt fyrir göturnar hér í sumar heldur væru önnur verkefni komin framar í forgangsröðuninni,“ segir Benedikt Jónsson, íbúi á Breiðdalsvík.

Sá kafli sem helst ergir Breiðdælinga eru 100 metrar á götunni Selnesi sem liggur að skóla og íþróttahúsi staðarins. Þar telja íbúarnir 45 holur. Hópur íbúa hittist síðasta þriðjudag og fyllti upp í holurnar með grasi og skreytti í kringum þær. „Þetta var samverustund fólksins sem hittist bæði þessi mál og önnur. Þarna var margt af því unga fólki sem flust hefur í þorpið síðustu ár,“ segir Benedikt.

Breiðdalshreppur sameinaðist Fjarðabyggð árið 2018. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga styrkti sameininguna um 680 milljónir, þar af voru um 200 milljónir eyrnamerktar í framkvæmdir en afgangurinn í niðurgreiðslu skulda. Samkvæmt fréttum Austurgluggans/Austurfréttar frá þeim tíma var sérstaklega horft til gatnaframkvæmda og bundu Breiðdælingar vonir við skjótar úrbætur.

Síðan er búið að malbika götuna Sæberg, sem áður var malarvegur, auk þess sem ráðist var í miklar framkvæmdir við að skapa leikskólanum aðstöðu í húsnæði grunnskólans.

„Við sameinuðumst því við töldum okkur of lítil til að reka okkur sjálf og horfðum til að njóta stærðarhagkvæmninnar. Samt upplifum við það enn að við séum of lítil. Við erum á jaðrinum og finnst við stundum ekki fá upplýsingar um í hvaða forgangi hlutirnir eru og af hverju,“ útskýrir Benedikt.

Hann segir Breiðdælinga telja þörf á auknum samskiptum milli stjórnenda Fjarðabyggðar og íbúa og nefnir þar meðal annars dæmi um heimastjórnir líkt og í Múlaþingi, en viðurkennir líka að íbúar hafi ekki alltaf nýtt þau færi sem þeim hafi boðist, svo sem nýafstaðna viðtalstíma bæjarstjóra á staðnum.

Aðspurður um viðbrögð við gjörningnum segir hann að í kjölfar hans hafi möl verið sett ofan í holurnar á Selnesveginum. Það sé þó engan vegin fullnægjandi viðgerð og ólíklegt að hún endist lengi.

Myndir: Aðsendar

Bdalsvik Gotur 1 Web
Bdalsvik Gotur 2 Web
Bdalsvik Gotur 3 Web
Bdalsvik Gotur 4 Web
Bdalsvik Gotur 5 Web



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.