
Íbúafundur um brunavarnir í Fljótsdal
Íbúafundur verður haldinn í dag um brunavarnir í Fljótsdalshrepps. Þar verður meðal annars farið yfir brunavarnir í útihúsum og gróðurelda.Fljótsdælingar hafa um nokkurt skeið haft áhyggjur af gróðureldum samhliða vaxandi skógrækt á svæðinu. Þá hafa orðið þar tveir allstórir brunar síðustu misseri, annars vegar í baðhúsi Óbyggðasetursins vorið 2021 og í útihúsum við bæinn Víðivelli ytri I í febrúar.
Á dagskrá fundarins í dag eru umræður um frauðplast og rafmagn í útihúsum, vatnstökustaðir, viðhald og meðferð slökkvitækja, ruslabrennur og sinueldar og möguleiki á slökkvibúnaði sem staðsettur yrði í sveitinni fyrir heimafólk sem væri á undan slökkviliði.
Framsögumenn verða Haraldur Geir Eðvaldsson, slökkvistjóri hjá Brunavörnum Múlaþings og Kjartan Benediktsson, hreppsnefndarmaður og björgunarsveitarmaður.
Fundurinn hefst í félagsheimilinu Végarði klukkan 17:00.