Í Hálsaskógi brúkar Soffía frænka búnað frá Digru Siggu

Verið er að ljúka við hreinsun í Hálsaskógi á Djúpavogi. Miklar skemmdir urðu þar í óveðrinu sem gekk yfir Austurland í lok september í fyrra þegar fjöldi trjá brotnaði. Áætlað er að um helmingur þessa skógræktarsvæðis Djúpavogsbúa hafi skemmst.


„Það er dálítið skemmtilegt að fyrirtækið mitt heitir Soffía frænka ehf og við hreinsunina hér þá notast ég við afar sérstakan búnað sem kemur frá fyrirtæki fyrir sunnan sem ber heitið Digra Sigga ehf.,“ segir Skúli Björnsson, framkvæmdastjóri.

Illu heilli féllu svo mörg tiltölulega gömul tré í óveðrinu í Hálsaskógi að allir göngustígar og rjóður lokuðust. Þar féllu eða brotnuðu eigi færri en fimm hundruð tré og mörg þeirra 15 til 20 metra há.

Strax í kjölfarið lýsti Anna Sigrún Gunnlaugsdóttir, formaður skógræktarfélagsins, áhyggjum sínum af því að svo lítið skógræktarfélag sem rekið væri nánast eingöngu í sjálfboðavinnu hefði enga leið til að kosta hreinsun skógarins.

Sérstök vél í verkið

Með dyggri aðstoð frá allnokkrum aðilum á borð við Skógræktina, Múlaþingi og Skógræktarfélagi Íslands, tókst þó fljótt að safna nægum fjármunum til að fá sérfróðan aðila til hreinsunarstarfsins og þar hefur Skúli verið að störfum nánast í allan vetur við að fella, saga, afkvista og draga saman og koma burtu þeim trjám sem skemmdust.

„Þetta hefur ekki verið auðvelt og ég þurfti að verða mér úti um sérstaka vél að sunnan, sú eina sinnar tegundar hérlendis, til að eiga möguleika á að flytja burt stóra trjáboli úr öllum skóginum. Hann var mjög þéttur skógurinn og það gerir hreinsunarstarfið afar erfitt eins og gefur að skilja. En ég fæ vissulega hjálp á köflum frá mönnum Skógræktarinnar, Múlaþings og héðan af svæðinu líka enda væri þetta ekki hægt án aðstoðar.“

Skúli segir skóginn því miður afar illa farinn. Skemmdirnar séu jafnvel verið meiri en svartsýnustu menn töldu víst og það sé að koma betur í ljós nú þegar búið er að hreinsa svæðið. Mikið verk bíði þeirra sem vilja gera skóginn að þeirri paradís sem hann var áður bæði fyrir heimafólk á Djúpavogi sem og ferðafólk.

„Ég hef verið að í nokkra mánuði núna og sé loks fyrir endann á hreinsunarstarfinu. Svo tekur við vinna við útkeyrslu á trjábolunum sem fara í nýtingu í borðvið og aðra slíka vinnslu. Ég gæti trúað að eftir tvær, til þrjár vikur verði ég búinn að hreinsa það sem hægt er. En það verður áfram augljóst hverjum sem hér kemur á næstu árum að eitthvað mikið hefur gengið á og einhver tími mun líða áður en sárin hér gróa.“

Tækið sem Skúli hefur notað við að ryðja burt föllnum trjám og skera niður boli er mjög sérhæfð vél og sú eina sinnar tegundar hérlendis. Nú sér fyrir endann á hreinsunarstarfinu. Mynd Skúli Björnsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.