Hyllir undir endalok langbylgjusendinga frá Eiðum

Útlit er að langbylgjusendingum frá Eiðum verði hætt í vetur og þar með verði ekki lengur þörf á langbylgjumastrinu sem þar hefur staðið í meira en 80 ár. Til stendur að tryggja útvarpssendingar í gegnum FM dreifikerfið.

Þetta kemur fram í svari Stefáns Eiríkssonar, útvarpsstjóra, við fyrirspurn Austurfréttar en RÚV hefur rekið mastrið á Eiðum.

RÚV hefur rekið tvö langbylgjumöstur, annars vegar á Gufuskálum á Snæfellsnesi, hins vegar á Eiðum. Um útvarpsöryggissendingar er fjallað í þjónustusamningi ráðherra og RÚV en að sögn Stefáns hafa þær verið til skoðunar í þó nokkurn tíma.

Á undanförnum árum hafi orðið margvíslegar tæknibreytingar, einna stærstar þær að Íslendingar eigi almennt ekki lengur útvörp sem taki við langbylgjusendingum, hvorki á heimilum né ökutækjum. Þá séu bæði möstrin og útsendingakerfið komið á aldur og fyrirséð að endurnýjun verði dýr.

Þess vegna hafi RÚV í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Neyðarlínuna og Isavia greint framtíð útvarpsöryggissendinga. Niðurstaðan úr þeirri vinnu sé að FM kerfið taki við öryggishlutverkinu á næstu árum.

Sú uppbygging er hafin því síðustu misseri hefur verið unnið að því að þétta FM dreifikerfið og byggja upp varaafl þannig það geti gegnt öryggishlutverki sínu um allt land.

Stefán segir þessa vinnu langt komna á Austurlandi og því svæði sem langbylgjunni á Eiðum sé ætlað að ná til. Staðan verði nánar kynnt þegar framkvæmdum sé lokið. Nánari dagsetningar liggi ekki fyrir en þetta sé fyrirhugað í vetur. Aðgerðir á Gufuskálasvæðinu komi síðar.

Langbylgjumastrið á Eiðum er um 220 metra hátt og er þriðja hæsta mannvirki landsins. Það var reist árið 1938. Íbúar á Eiðum hafa kvartað ítrekað síðustu ár vegna óþæginda sem þeir hafa orðið fyrir frá hvítum og skærum blikkljósum á mastrinu sem eru til að vara flugumferð við. Ljósin sjást reyndar oft í myrkrinu um stóran hluta Fljótsdalshéraðs og meðal annars af veginum um Fagradal.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.