Áhyggjur af vaxandi notkun ofvirknilyfja: Niðurgreiðslu ekki hætt

adhd_logo.jpg
Ekki stendur til að hætta niðurgreiðslu lyfja sem innihalda metýlfenidat til fullorðinna og eru notuð við athyglisbresti og ofvirkni. Eftirlit með ávísunum verður eflt. Notkun lyfjanna hérlendis er sú mesta sem gerist í heiminum. 

Þetta kemur fram í tilkynningu sem velferðarráðuneytið sendi frá sér í gær en fulltrúar þess og ADHD-samtakanna funduðu fyrir helgi. Ástæðan er umræða sem spannst í síðustu viku eftir pistil Stefáns Boga Sveinssonar hér á Austurfrétt þar sem hann greindi frá jákvæðri reynslu sinni af lyfjanotkun í baráttunni við athyglisbrest og klásúlu í fjárlagafrumvarpi um að til stæði að hætta niðurgreiðslu lyfjanna fyrir fullorðna.

Í yfirlýsingu ráðuneytisins frá í dag segir að niðurgreiðslunum verði ekki hætt en „eftirlit með ávísunum metýlfenidatslyfja til fullorðinna verður eflt, auknar kröfur gerðar um faglega greiningu og strangari skilyrði sett fyrir greiðsluþátttöku sjúkratrygginga.“

Hert eftirlit 
 
Í tilkynningunni segir að óbreyttu sé áætlað að niðurgreiðslur lyfjanna fyrir fullorðna nemi hátt í 340 milljónum króna en miðað við fjárlagafrumvarpið lækki útgjöldin um 220 milljónir.

„Eftir stendur þriðjungur af fjárhæðinni sem nýtast mun til að greiða niður metýlfenidat hjá fullorðnum. Aftur á móti er gert ráð fyrir að fækki í hópi fullorðinna sem fá ávísað metýlfenidatslyfjum með bættum greiningum, breyttum vinnureglum sjúkratrygginga, hertu eftirliti Embættis landlæknis og stofnun sérstaks teymis á Landspítala sem verður faglegur bakhjarl sérfræðinga og ráðgefandi fyrir heilbrigðisyfirvöld. Fjármögnun vegna stofnunar teymisins hefur verið tryggð.“

Ísland - mest í heimi! 
 
Sérstök athygli er vakin á því að notkun metýlfenidat-lyfja sé hvergi meiri en á Íslandi og hafi „aukist ár frá ári, sérstaklega hjá fullorðnum“. Þetta sé „áhyggjuefni.“ Alþjóðafíkniefnaráð Sameinuðu þjóðanna hafi varað Íslendinga við þessari miklu notkun. SÁÁ segir metýlfenidat það efni sem íslenskir sprautufíklar noti mest. 

Rétt eins og menn viðurkenna að lyfin gagnist fullorðnum er líka viðurkennt að misnotkun þess er raunveruleg. Heilbrigðisyfirvöld hafa því leitað leiða til að koma í veg fyrir misnotkunina án þess að skerða möguleika sem á því þurfi að halda.

Aðgengið þegar erfitt úti á landi 
 
Stefán Bogi sjálfur segir niðurstöðu ráðuneytisins ásættanlega. Í færslu á Facebook-síðu sinni í gær benti hann á að þótt sjálfsagt sé að auka eftirlit með ávísunum sé rétt að hafa það í huga að aðgengi landsbyggðarbúa sé þegar mjög erfitt.

„Íbúar á Austurlandi þurfa t.a.m. nú þegar annað hvort að koma sér norður eða suður í viðtal hjá geðlækni, eða þá að sæta lagi þegar slíkur læknir kemur við hér á nokkurra mánaða fresti. Það verður að gæta þess að nýja kerfið verði ekki tæknileg hindrun í vegi þeirra íbúa landsbyggðanna sem þurfa á þessari hjálp að halda.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.