„Hvorki landeigendur, sveitarfélagið, álfar, huldufólk eða aðrir gátu veitt leyfi“

Umhverfisstofnun skoðar hvort rétt hafi verið staðið að verki þegar veitt var leyfi til útskurðar í kletta í Stöðvarfirði fyrr á árinu. Tekist er á um skilgreiningu í náttúruverndarlögum um hvað teljist einstakt náttúrufyrirbrigði.

Umhverfisstofnun sendi sveitarfélaginu Fjarðabyggð fyrirspurnir um hvernig hefði verið staðið að útgáfu leyfis fyrir skurðinum fyrir mánuði eftir að greint var frá útskurðinum í fréttum.

Í bréfi stofnunarinnar er vitnað til viðtals í fréttum RÚV um að álfar og huldufólk hafi meðal annars veitt leyfi fyrir útskurði bandaríska listamannsins Kevin Sudeith í kletta í landi Landa í Stöðvarfirði.

Þar er vísað til laga í náttúruverndarlögum um að hvers konar áletranir á náttúrumyndanir séu óheimilar og varði refsingu, sekt upp á að lágmarki 350.000 krónur eða allt að tveggja ára fangelsi. Út frá ákvæði laganna sé ljóst að „hvorki landeigandi, sveitarfélagð, álfar, huldufólk né aðrir geti veitt slíkt leyfi.“ Þá sé um varanleg ummerki að ræða.

Í svari Fjarðabyggðar kemur fram að málið hafi verið í ferli innan stjórnkerfis sveitarfélagsins síðan í janúar. Strax hafi verið talið rétt að kanna með framkvæmdaleyfi auk leyfis Umhverfisstofnunar og allra landeigenda.

Skipulags- og byggingafulltrúi taldi framkvæmdina ekki framkvæmdaleyfisskilda og allir landeigendur veittu leyfi.

Lykilatriðið í svari sveitarfélagsins snýst hins vegar um túlkunina á hugtakinu „náttúrumyndanir“ en vísað er til skilgreiningu í lögunum um að með því sem átt við „einstakt fyrirbrigði í náttúruunni sem að jafnaði sker sig úr umhverfinu.“

Í svarinu segir að þessi skilgreining hafi ekki átt eiga við klettana í Stöðvarfirði. Þeir séu dæmigerðir berggangar og mjög algengir hérlendis.

Hjá Umhverfisstofnun fengust þær upplýsingar að verið væri að fara yfir svar sveitarfélagsins. Engar ákvarðanir um framhald málsins liggi því fyrir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar