Hvetur Vopnfirðinga til samveru og útivistar

„Ég er mjög spennt fyrir þessu verkefni, það mælist vel fyrir og fólk virðist ánægt með framtakið,“ segir Bjarney Guðrún Jónsdóttir á Vopnafirði, sem sendi áskorun um aukna samveru og útivist inn á hvert heimili í bænum.


Bjarney Guðrún, sem er íþróttafræðingur með sérkennsluréttindi, stendur einnig fyrir útivistarratleiknum Ögrun í Vopnafirði annað árið í röð, sem og fjöskylduratleik og kapphlaupi, einnig undir merkjum Ögrunar.

„Í ár lét ég semsagt einnig útbúa bækling sem nefnist „Áskorun Ögrunar“, sem fór í öll hús í lok hreyfivikunnar hér á Vopnafirði í lok maí. Í hann hef ég listað upp allskonar verkefni sem sameina samveru og útivist, allt frá fjallgöngu, fjöruferð, lautarferð eða því að horfa á fótboltaleik. Fólk bara krossar svo við það sem það hefur gert af listanum og þegar að lágmarki 15 atriði eru komin má skila bæklingnum inn og ég dreg svo út þrjá vinninga í lok sumars,“ segir Bjarney.

Vill sjá fleiri sveitarfélög gera eitthvað sambærilegt
Bjarney segir áskorunina fyrst og fremst hugsað sem hvatningu til samveru. „Þetta er verkefni sem ég væri til í að sjá fleiri sveitarfélög taka upp. Mér finnst við stundum svo upptekin og þetta er kannski tilraun til þess að benda á að það þarf svo lítið, til dæmis bara að rölta niður í fjöru með börnunum eða fara í stutta lautarferð með nesti. Það þarf ekki að kosta mikið eða vera einhver rosa umgjörð þetta snýst allt um að vera bara saman, upplifa og njóta.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.