Hvetja ríkið og fiskeldisfyrirtæki til að blása í íbúafund á Seyðisfirði

Heimastjórn Seyðisfjarðar hvetur forsvarsmenn Ice Fish Farm, áður Fiskeldi Austfjarða, sem áformar töluvert fiskeldi í firðinum að blása til íbúafundar sem fyrst til að halda heimamönnum upplýstum um áætlanir fyrirtækisins og stöðu verkefnisins. Þá er líka hvatt til að opinberar stofnanir ríkisins haldi svipaðan fund um framtíðarsýn vegna fiskeldis.

Fyrir skömmu fékk heimastjórnin aðstoðarforstjóra Ice Fish Farm, Jens Garðar Helgason, og Sigfinn Mikaelsson, einn forsvarsmanna VÁ-félags, sem stendur gegn gegn fiskeldi í Seyðisfirði á fund sinn. Tilefni fundarins voru niðurstöður nýlegrar skoðanakönnunar Gallup um fiskeldisáform í firðinum en sú könnun sýndi fram á yfirgnæfandi andstöðu við þær hugmyndir.

Nú er hins vegar ferlið svo langt komið í kerfinu að heimafólk hefur lítið sem ekkert um það að segja hvort eða hvenær Ice Fish Farm byrjar að setja niður kvíar undir fiskeldi. Þær ákvarðanir liggja nú hjá Skipulagsstofnun og Matvælastofnun. Fáist grænt ljós þaðan hefst formlega fiskeldi í Seyðisfirði fljótlega í kjölfarið.

Heimastjórnarfólkið; Björg Eyþórsdóttir, Jón Halldór Guðmundsson og Margrét Guðjónsdóttir, létu bóka að stjórnin fagni almennri umræðu um stjórnsýslu og eftirlit með sjókvíaeldi, vonast til umbóta í umgjörðinni allri og að þannig náist meiri almenn sátt um greinina. Stjórnin tekur líka undir með öðrum sem hafa gagnrýnt að nærumhverfi fiskeldis njóti ekki góðs af eins og raunin er nú. Íbúafundur þeirra stofnana ríkisins sem aðkomu eiga sé því einnig góð hugmynd og er sveitarstjórn hvött til að koma á slíkum fundi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.