Hvetja ráðherra til að samþykkja ekki strandsvæðaskipulag Seyðisfjarðar

Félagar í VÁ, sem berst gegn áformum um fiskeldi í Seyðisfirði, hafa sent innviðaráðherra bréf með ósk um að hann neiti að samþykkja strandsvæðaskipulag Austfjarða eins og það liggur fyrir. Félagarnir telja óbreytt skipulag valda óafturkræfum skaða á náttúru og samfélagi Seyðisfjarðar.

Þetta kemur fram í erindi sem félagið sendi Sigurði Inga Jóhannssyni, innviðaráðherra, fyrir helgi. Tveir aðrir ráðherrar, Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, sem ráðherra fjarskiptamála, fengu einnig afrit sem og þingmenn Norðausturkjördæmis og nefndarfólk í atvinnuvega- og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.

Þar er þess farið á leit að Sigurður Ingi samþykki ekki tillögu svæðisráðs að strandsvæðaskipulagi Austurlands eins og hún liggur fyrir. Félagarnir segja að með því væri verið að troða á fjölbreyttum hagsmunum á Seyðisfirði. Ráðherra fékk skipulagið í hendurnar þann 19. desember síðastliðinn og hefur 12 vikur til að afgreiða það.

Í athugasemdum VÁ er meðal annars bent á að kvíarnar þrengi að bæði siglingaleiðum og legusvæði Farice-fjarskiptastrengsins. Vitnað er til erindis frá framkvæmdastjóra Farice um að ankeri megi ekki vera nær strengnum en sem nemi fjórðung úr sjómílu. Þetta atriði vakti athygli við gerð skipulagsins þegar í ljós kom að ruglingur hafði orðið hjá svæðisráði á land- og sjómílu en fjórðungur úr sjómíli sjómílan er 60 metrum lengri en í landmílunni.

Þá er bent á að staðsetningar eldissvæðanna brjóti gegn siglingalögum því þær séu staðsettar innan svokallaðs hvíts geisla frá vitum. Þá er ráðherrann hvattur til að skoða misræmi milli tveggja stofnana sem undir hann heyri. Annars vegar Vegagerðarinnar, sem telji 250-300 metra breiða nægjanlega meðan Samgöngustofa kalli núverandi 500 metra leið mjóa.

Vísað er til náttúruhátta, að áætlað eldissvæði í Selsstaðavík sé á hættusvæði C samkvæmt ofanflóðamati og að grænt svæði í Skálanesbót sé afnumið í svæðisskipulaginu. Þar sé uppeldisstaður bæði fugla og fiska.

Enn fremur er vísað til áhrifa fiskeldis á samfélagið á Seyðisfirði en yfir helmingur íbúa yfir 18 ára aldri skrifaði undir undirskriftalista til að mótmæla eldinu haustið 2020.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.