Hvetja Austfirðinga til að fara varlega um páskana

Aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands hvetur íbúa fjórðungsins til að fara varlega um páskahátíðina til að forðast útbreiðslu Covid-19 veirunnar.

Í tilkynningu aðgerðastjórnar er bent á að enn sé töluvert að greinast af smitum utan sóttkvíar auk þess sem vísbendingar séu um að bólusettir geti borið veiruna með sér þótt þeir séu án einkenna og fullfrískir.

Aðgerðastjórnin beinir því til fólks að fara varlega um páskana, gæta að tveggja metra reglunni, grímunotkun, handþvotti og sprittnotkun. Þá eigi fólk að vera heima og hringja í síma 1700 geri einkenni vart við sig.

Sextán smit eru skráð í fjórðungnum og greindust öll á landamærunum. Af þeim eru tíu skipverjar súrálsskipsins Taurus Confidence í Mjóeyrarhöfn. Einn hefur verið fluttur á Landsspítalann en hinir níu eru heldur að braggast. Þá eru enn níu félagar þeirra um borð án smita.

„Höldum þessar góðu reglur, hugum hvert að öðru og förum þannig hratt og örugglega yfir þennan vandræðahjall sem við nú klífum,“ segir í tilkynningunni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.