Hvatasjóður fyrir nemendur Háskólagrunns

Samkomulag var undirritað í gær um Gletting, nýjan hvatningarstyrk atvinnulífsins fyrir nemendur í Háskólagrunni Háskólans í Reykjavík á Austurlandi.

Markmið styrksins er að hvetja nemendur til góðrar ástundar í Háskólagrunninum, sem verður í boði eystra frá og með næsta hausti. Þá er styrknum ætlað að auka vitund og umræðu um mikilvægi þekkingarstarfsemi í fjórðungnum, að því er fram kemur í tilkynningu.

Hver styrkur nemur 500.000 krónum og reiknað með að 1-2 nemendur geti hlotið hann í lok námsárs. Til þess þurfa þeir að hafa lokið náminu á einu ári með hæstu einkunn.

Alcoa-Fjarðaál, Síldarvinnslan, Loðnuvinnslan, Eskja og Laxar fjármagna styrkinn sameiginlega til tveggja ára, en fulltrúar þeirra hafa tekið virkan þátt í fjármögnun og stefnumótun háskólaverkefnisins á Austurlandi.

Fulltrúar fyrirtækjanna undirrituðu samninginn í gær ásamt framkvæmdastjóra Austurbrúar og rektorum Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri. Vonir standa til að frá haustinu 2022 verði í boði háskólanám á vegum skólanna eystra í iðn og/eða tæknifræði.

Rektorar beggja skóla lýstu við undirskriftina yfir ánægju með aðkomu atvinnulífsins að verkefninu og sögðu hana til marks um víðtækan og mikilvægan samfélagslegan stuðning við uppbyggingu háskólanáms á svæðinu.

Háskólagrunnur HR á Austurlandi er fyrir þau sem vilja hefja háskólanám en vantar tilskilinn undirbúning. Hægt er að ljúka lokaprófi úr Háskólagrunni eða viðbótarnámi við stúdentspróf og nýta sem leið inn í nám á háskólastigi.

Umsóknarfrestur um námið rennur út 15. júní en kennsla hefst í ágúst. Námið verður sveigjanlegt, blanda af staðbundnu og stafrænu námi, með aðstöðu í Fróðleiksmolanum á Reyðarfirði.

Frá vinstri, Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmdarstjóri Austurbrúar, Dagmar Ýr Stefánsdóttir yfirmaður samskipta og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðaáli, Sigurður Ólafsson verkefnastjóri hjá Síldarvinnslunni, Ari Kristinn Jónsson rektor Háskólans í Reykjavík og Eyjólfur Guðmundsson rektor Háskólans á Akureyri. Mynd: Austurbrú

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.