Orkumálinn 2024

Hvalreki á Héraðssandi

Fimmtán metra langan búrhvalstarf rak á land skammt frá ósi Fögruhlíðarár á Héraðssandi í síðustu viku. Hvalasérfræðingar eru áhyggjufullir yfir vaxandi fjölda hvalreka á norðurslóðum.

Sérfræðingar Náttúrustofu Austurlands fóru á vettvang í gær til að skoða hræið og taka sýni úr því, en fyrst mun hafa sést til hvalsins í fjörunni á sunnudag.

Skarphéðinn G. Þórisson, líffræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands, segir hræið ágætlega farið og ekki sé farið að leggja frá því neina ólykt. Ekki er vitað hvað varð búrhvalnum að aldurtila en að sögn Skarphéðins eru fremstu tennur hans brotnar sem kann að benda til þess að hann hafi lent í árekstri.

„Búrhvalir geta kafað niður allt á 2000 metra dýpi. Þegar þeir koma úr kafinu eru þeir vankaðir og saddir og liggja og dorma í sjávarborðinu. Þá getur það komið fyrir að skip sigli á þá,“ segir hann.

Nauðsynlegt að skilja hvað er að gerast í hafinu

Hvalasérfræðingar hafa hins vegar áhyggjur af auknum fjölda hvalreka á norðurslóðum og leita skýringa á þeim. Mikil umræða hefur verið í Noregi síðustu daga þar sem tíu hvalshræ, mest af búrhvölum, hefur rekið á land í norðurhluta ríkisins á innan við mánuði. Hérlendis hefur fjóra hvali rekið á land frá í byrjun mars.

Norska ríkisútvarpið, NRK, hefur eftir þarlendum hvalasérfræðingum að ekki sé óalgegnt að hvali reki á land á þessum árstíma en ástæða sé til að hafa áhyggjur af þessum fjölda. Þeir kalla eftir ítarlegum og skipulögðum rannsóknum á dánarorsökum hvalanna. Það getur verið nokkuð mál, en vinnuvélar þarf til að kryfja hval.

Sérfræðingarnir segja nauðsynlegt að skilja hvað sé að gerast í hafinu. Fyrst og fremst séu fjögur atriði sem dregið geti búrhvalina til dauða. Í fyrsta lagi sé það árekstur við skip eða önnur farartæki, í öðru lagi elli eða sýkingar, í þriðja lagi plastmengun og í fjórða lagi hávaði.

Plast og höggbylgjur

Í vikunni var greint frá nýrri norskri rannsókn um hávaða í sjó. Þar er bent á á að hávaði, til dæmis frá höggbylgjum við olíuvinnslu, geti valdið lífverum í sjó miklum skaða en þær treysti á heyrnina til að rata, finna æti og að sjálfsögðu hafa samskipti. „Þetta á ekki bara við um hvali heldur líka fiska,“ bendir Skarphéðinn á.

Líffræðingar hafa lengi varað við vaxandi áhrifum plastmengunar í hafinu á lífríkið. „Fyrir nokkrum vikum rak hval á land í Skotlandi. Í einni vömbinni á honum fundust yfir 100 kg af drasli, netum og vettlingum til dæmis. Hann er ekki talinn hafa drepist af því en það er samt vel þekkt að plast geti drepið hvali.

Þegar ég kenndi líffræði í Menntaskólanum á Egilsstöðum, um miðjan níunda áratuginn, fórum við einu sinni niður á Fáskrúðsfjörð þar sem höfrung hafði rekið á land. Við krufðum höfrunginn og fundum tvo plastpoka frá Kaupfélaginu sem stífluðu þarma hans. Tannhvalir éta mikið af smokkfiskum og poki getur líkst slíkum fiski á sundi.“

Mikilvægt að láta vita

Óljóst er hvað verður um hræið á Héraðssandi, en það í landi Ketilsstaða. Skarphéðinn telur líklegast að það muni með tímanum grafast í sandinn en samkvæmt lögum á landeigandi hvalrekann. Tennur búrhvala geta verið verðmætar en óheimilt er að flytja þær úr landi, nema með sérstökum leyfum.

Ákveðnar reglur gilda hérlendis um hvernig hvalshræ skuli meðhöndluð. Skarphéðinn hvetur þá sem sjá hvalreka til að láta starfsfólk Náttúrustofunnar vita en það sjái til þess að rétt ferli fari af stað.

Mynd: Skarphéðinn G. Þórisson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.