Hundruð milljóna tjón á Reyðarfirði

Fjöldi íbúðarhúsa eru skemmd og minnst óíbúðarhæft eftir mikið hvassviðri á Reyðarfirði í gær. Formaður björgunarsveitarinnar á staðnum segir allt hafa fokið sem fokið gat.

„Þetta er fleiri hundruð milljóna tjón í heildina. Það eru minnst tvö íbúðarhús illa farin og eitt óíbúðarhæft. Hluti af þakinu fauk af því og það þarf að skoða burðarverkið,“ segir Björn Óskar Einarsson, formaður björgunarsveitarinnar Ársólar á Reyðarfirði.

Íbúðarhúsið sem verst fór stendur uppi í svokölluðu Stekkjarhverfi, innst og efst í bænum. Þar skammt frá er skemma í eigu Fjarðabyggðar sem einnig skemmdist mikið í veðurofsanum.

Fyrir utan íbúðarhúsin varð töluvert tjón á atvinnuhúsnæði. Slökkvistöðin á Hrauni, rétt hjá álverinu, fór illa sem og húsnæði þar á vegum Launafls og Eimskipa auk þess sem talsvert tjón varð á álverinu sjálfu. Ekki hefur enn náðst að skoða almennilega stöðuna við Mjóeyrarhöfn frekar en víðar á Reyðarfirði eða á Austurlandi því veðrið er vart gengið enn niður.

„Það er enn spænivitlaust veður þótt manni finnist vera logn samanborið við í gær. Það er enn ekkert veður til að hreyfa einhverjar járnplötur. Það eru brotnar rúður í fjölmörgum farartækjum. Ég held að fólk átti sig ekki enn á hve mikið heildartjónið er og á eftir að reyna á hvað af því fáist bætt,“ segir Björn Óskar en Náttúruhamfaratrygging Íslands sendi frá sér tilkynningu þar sem minnt er á að hún bæti ekki foktjón.

Þegar mest lét eftir hádegið í gær voru um 30 verkefni skráð á aðgerðalista björgunarsveitarinnar. Um kvöldmat hægðist á. „Þeim fjölgaði á stuttum tíma úr níu upp í 30. Þetta var miklu meira en við réðum við og fengum hjálp frá Norðfirði og Fáskrúðsfirði. Verkefnin voru búin um klukkan sjö í gærkvöldi. Þá var allt fokið sem fokið gat. Vindurinn mældist 38 m/s í morgun en það var ekkert eftir til að fjúka. Það sem af er degi hafa bara verið smá útköll.“

Hefðu getað tryggt muni betur

Björn Óskar segist þakklátur fyrir að enginn hafi slasast í atganginum í gær en er á móti ósáttur við sveitunga sína að hafa ekki undirbúið sig betur fyrir hvassviðrið.

„Það er tvennt sem er sérstaklega merkilegt í þessu. Annars vegar hve mikið nýleg hús skemmdust þó vissulega séum við ekki oft búin undir að fást við rok upp á 50 m/s því það kemur ekki oft.

Hins vegar fauk mikið af lausamunum, sem fólk hefði átt að hafa gengið frá og ollu stórtjóni annars staðar. Það var óbærilegt drasl á ferðinni. Á tímabili sá ég þrjár öskutunnur í um 50 metra hæð á leið til sjávar. Það fuku hér járnplötur og fleira. Það verður áhugavert að skoða skógræktina og fleiri svæði í kring þegar lægir.

Það eru nokkrir hér sem hefðu átt að fá rauða spjaldið fyrir rok. Spáin var orðin nokkuð klár á miðvikudagskvöld en á laugardagskvöld var fólk að ranka við sér. Þá var hins vegar orðið of seint að gera neitt af viti. Ég vona að fólk noti lognið í að ganga almennilega frá því það mun hvessa aftur. Merkilegast er þó og þakkarvert að enginn hafi slasast.“

Frá Reyðarfirði í gær. Mynd: Þórður Vilberg Guðmundsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.