Orkumálinn 2024

Hundanammi úr kolmunnakvörnum

Kalkríkt hundanammi varð hlutskarpast í nýsköpunarkeppni grunnskólanna í Fjarðabyggð.

Frá skólabyrjun hafa elstu bekkir grunnskólanna í Fjarðabyggð fengið úthlutað tímum í stundaskrá til að vinna að nýsköpun. Uppskeruhátíð keppninnar var haldin síðasta laugardag, samhliða lokaathöfn Hacking Austurland.

Krakkarnir fengu kvarnir úr kolmunna til að vinna með. Þær eru harðar og geta valdið usla í vinnsluvélum sleppi þær í gegnum skilvindurnar. Kvarnirnar eru ekki notaðar í dag en þær eru gerðar úr efnasamböndum sem eru 90% kalk.

Fyrstu verðlaun í skólakeppninni fengu þær Katla Sigurðardóttir, Díana Ósk Jónsdóttir og Oddrún Eik Bjarkadóttir úr 9. bekk Nesskóla sem nýttu kvarnirnar í hundanammi. Þær fengu kvarnirnar muldar og blönduðu þeim saman við berjasultu og banana.

„Við leituðum á netinu eftir einhverju sem væri hollt að setja saman við þær. Við prófuðum okkur áfram þar til við fundum eitthvað sem virkaði,“ útskýrir Katla.

Aðrar verðlaunahugmyndir snérust um að nota efnasamböndin úr kvörnunum sem áburð og sem heilsuduft sem leyst væri upp í vatni til drykkjar.

Ítarlegri umfjöllun um nýsköpunarátakið er að finna í Austurglugganum sem kom út í dag.

Verðlaunahafar ásamt fulltrúum skipuleggjenda.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.