„HSA hefur fært víglínu íslenskrar heilbrigðisþjónustu fram“

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, er ánægð með samstarfssamning um innleiðingu jákvæðrar heilsu sem Heilbrigðisstofnun Austurlands verður fyrst íslenskra heilbrigðisstofnana til að innleiða. Fulltrúar HSA, þriggja sveitarfélaga á Austurlandi og Institute for Positive Health skrifuðu undir samstarfssamning þess efnis í heilbrigðisráðuneytinu í dag.

„Við horfum yfirleitt á heilbrigðiskerfið sem vettvang sjúklinga sem þurfa á lækningu að halda. Það er vissulega meginmarkmið þjónustunnar en það er líka mikilvægt að beita öllum skynsömum og árangursríkum leiðum til að lýðheilsu og heilbrigði landsmanna til að geta staðið undir meginmarkmiðinu. Til þess þurfum við að stuðla að aukinni sjálfshjálp og auka við ábyrgð einstaklinga á heilsu sinni,“ sagði Svandís við undirritunina í dag.

Institute for Positive Health í Hollandi hefur undanfarin ár þróað hugmyndafræðina um jákvæða heilsu sem HSA tekur nú upp í samstarfi við Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað og Seyðisfjarðarkaupstað.

Með hugmyndafræðinni er að vissu leyti snúið við ríkjandi hugsun í heilbrigðisþjónustu sem einblínir oft á skyndilausnir við óþægindum og einstaklingurinn skilgreindur sem sjúklingur.

Í staðinn er horft á einstaklinginn sjálfan og almenna líðan hans út frá sex meginstoðum: andlegri heilsu, tilgangi í lífinu, daglegri virkni, félagslegri þátttöku lífsgæðum og líkamlegri getu. Út frá þessu mati er einstaklingum vísað á viðeigandi úrræði, sem oft eru hvorki frekari læknismeðferð né lyfjagjöf.

„Að innleiða heilsueflandi aðferðafræði í opinberri þjónustu verður mikilvægara eftir því sem samfélagið stækkar. Eftir því sem aldurssamsetningin breytist eykst áherslan á forvarnir.

Við þekkjum slagorðið heilsuefling hefst hjá þér en það snýst um margt. Því skiptir máli að allar stofnanir samfélagsins styðji við heilsueflandi lífsstíl, ekki bara þær sem snúast um heilsu og heilbrigði heldur líka þær sem vinna með menntun, samgöngur og fleira,“ sagði Svandís sem fagnaði frumkvæði HSA.

„Ég fagna sérstaklega frumkvæði HSA sem sýnir hvað ein stofnun getur gert, ein og sér fært víglínu íslenskrar heilbrigðisþjónustu fram. Síðan er það okkar hinna að horfa á hvað það fólk gerir sem stígur skrefið fyrst og fylgja svo í kjölfarið. Þetta er hamingjustund sem markar upphafið að markvissu samstarfi og ég vona að verði fyrsta skrefið í enn betri heilsu íbúa Austurlands,“ bætti hún við.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.