HSA fyrst til að innleiða hugmyndafræði jákvæðrar heilsu

Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) verður fyrst íslenskra heilbrigðisstofnana til að innleiða hollenska hugmyndafræði um jákvæða heilsu. Skrifað var undir samninga þess efnis milli HSA, þriggja austfirskra sveitarfélaga og Instittute for Positive Health í dag.

Institute for Positive Health í Hollandi hefur undanfarin ár þróað hugmyndafræðina um jákvæða heilsu sem HSA tekur nú upp í samstarfi við Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað og Seyðisfjarðarkaupstað.

Með hugmyndafræðinni er að vissu leyti snúið við ríkjandi hugsun í heilbrigðisþjónustu sem einblínir oft á skyndilausnir við óþægindum og einstaklingurinn skilgreindur sem sjúklingur.

Í staðinn er horft á einstaklinginn sjálfan og almenna líðan hans út frá sex meginstoðum: andlegri heilsu, tilgangi í lífinu, daglegri virkni, félagslegri þátttöku lífsgæðum og líkamlegri getu. Út frá þessu mati er einstaklingum vísað á viðeigandi úrræði, sem oft eru hvorki frekari læknismeðferð né lyfjagjöf.

HSA er fyrst íslenskra heilbrigðisstofnana til að innleiða hugmyndafræði IPH en fulltrúar stofnunarinnar hafa komið hingað til lands og flutt erindi, meðal annars á vegum Virk sem að hluta hefur tileinkað sér hugmyndafræðina.

Snýst um að horfa á styrkleika einstaklingsins

„Þetta er stefna sem höfðar mjög til okkar. Hún vinnur með styrkleika og það sem er í lagi hjá einstaklingnum í stað þess að einblína á veikleika og sjúkdóma. Það rímar vel við verkefni landlæknis um heilsueflandi sveitarfélög. Nú þegar við erum að fara af stað með heilsueflandi vinnustaði hlakka ég til að sjá hvað þessi samningur gerir, einnig fyrir HSA sem vinnustað.

Við sjáum að eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu eykst og kostnaður líka. Við vitum að besta leiðin til lengri tíma litið er að efla lýðheilsu sem skiptist í heilsueflingu og forvarnir,“ sagði Alma Möller, landlæknir, við undirritunina í heilbrigðisráðuneytinu í dag.

Hlakka til samstarfsins

Guðjón Hauksson, forstjóri HSA, sagði bæði ógnvekjandi og spennandi að vera fyrst íslenskra stofnana til að taka upp hugmyndafræði jákvæðrar heilsu en kvaðst vonast til að innleiðingin gengi vel þannig að HSA yrði fyrirmynd annarra heilbrigðisstofnana.

Hann þakkaði sérstaklega sveitarstjórnarfólkinu fyrir að hafa tekið vel á móti fulltrúum HSA þegar þeir kynntu hugmyndir sínar. „Vitandi hvaða kraftur býr í þessum samfélögum sem við erum að semja við þá fer ég öruggur inn í þetta samstarf um að okkur munu takast vel til. Þess vegna hlakka ég til komandi mánaða,“ sagði hann.

Sveitarfélögin þrjú hafa verið aðilar að verkefnum um heilsueflandi sveitarfélög síðan í byrjun árs 2017. „Þegar fulltrúar HSA höfðu samband í lok síðasta árs, með þær hugmyndir sem nú eru að verða að veruleika, sáu fulltrúar allra þessara sveitarfélaga strax hve vel hún féll að þeirri hugmyndafræði. Ég fagna þessu útspili HSA og horfi bjartsýnn til framtíðar,“ sagði Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.