HSA fyrst heilbrigðisstofnana að ljúka Grænum skrefum í rekstrinum

Heilbrigðistofnun Austurlands (HSA) varð í síðasta mánuði fyrst heilbrigðisstofnana í landinu til að ljúka öllum fimm svokölluðum Grænum skrefum sem ríkisfyrirtæki eru hvött til að innleiða til að lágmarka umhverfisáhrif af starfseminni.

Þetta er meðal þess sem fram kom á ársfundi heilbrigðisstofnunarinnar sem haldinn var á Eskifirði í morgun. Þar fór Borghildur Fjóla Kristjánsdóttir, rekstrarstjóri hjá HSA, yfir hve mikil áhersla er lögð á að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af allri starfsemi en sérstök loftslagsstefna hefur við lýði hjá stofnuninni um nokkurra ára skeið. Hluti þess sé þátttakan í Grænum skrefum en þar er sérstöku bókhaldi árlega skilað til Umhverfisstofnunar og unnið skipulega að því að minnka mengun, sóun og auka nýtni sé þess kostur.

Það er þó ýmsar áskoranir sem sjúkrahús glíma sérstaklega við í þessu tilliti að sögn Borghildar:

„Þetta er flókin starfsemi og margþætt og fer fram á þrettán starfsstöðvum þannig á áskoranirnar í umhverfisvænum rekstri eru töluverðar. Fyrir rekstur eins og okkar þá eru til dæmis bara samgöngur, akstur og flug, stór þáttur. Þar getum við helst vistvænum bílum í bílaflotanum okkar og varðandi flugið að hafa það í huga hvort við þurfum að fara eða hvort við getum tekið þátt með fjarfundabúnaði. Sjúkrahúsrekstur er líka bara flókinn þegar kemur að úrgangsmálum. Það er margt í okkar rekstri sem er annaðhvort óflokkanlegt eða sóttmengað en þar getum við lagt áherslu á rétta flokkun og rétta meðhöndlun. Svo er hluti starfsstöðva HSA á köldum svæðum sem skýrir að hluta mikla kolefnislosun vegna rafmagnsnotkunar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.