Hrókeringar hjá Framsókn: Sigmundur inn en Birkir út

birkir_jon_jonsson.jpg
Birkir Jón Jónsson, oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, tilkynnti í dag að hann gæfi ekki kost á sér til endurkjörs í næstu þingkosningum né heldur sem varaformaður flokksins. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, ætlar að bjóða sig fram í kjördæminu.

Í yfirlýsingu Birkis Jóns segir að ákvörðunin sé af „persónulegum ástæðum.“ Hann hafi undanfarin 15 ár helgað sig stjórnmálum og telji nú rétt að snúa sér að öðrum verkefnum. Birkir segist undanfarnar vikur hafa hvatt Sigmund Davíð til að bjóða sig fram í Norðausturkjördæmi

„Um leið og ég þakka Sigmundi gott og árangursríkt samstarf fagna ég því að hann skuli vilja bjóða fram krafta sína.“

Í yfirlýsingu Sigmundar Davíðs þakkar hann Birki samstarfið. Sigmundur Davíð rifjar að það voru áhrifamenn úr Norðausturkjördæmi sem hvöttu hann til að bjóða sig fram til formanns Framsóknarflokksins.

„Á sínum tíma, þegar ég hóf þátttöku í stjórnmálum, fyrir áeggjan fólks í Norðausturkjördæmi, bauðst Birkir Jón til þess að fyrra bragði að stíga til hliðar þegar hart var lagt að mér að bjóða mig fram fyrir kjördæmið. Ég afþakkaði það að sinni og lýsti því yfir að ég myndi byrja á því að bjóða mig fram í Reykjavík. 

En nú þegar Birkir Jón hverfur á braut hyggst ég sækjast eftir því að vera í framboði fyrir Framsóknarflokkinn í Norðausturkjördæmi og taka þátt í baráttunni fyrir því að flokkurinn endurheimti stöðu sína sem stærsti flokkur kjördæmisins.“

Í gær lýsti Höskuldur Þórhallsson, hinn þingmaður flokksins í kjördæminu, því yfir að hann sæktist eftir fyrsta sætinu. Koma Sigmundar Davíð gæti gert honum þar erfiðra fyrir. Þeir hafa att kappi áður, þeir buðu sig báðir fram til formanns flokksins 2009. Þar hafði Sigmundur betur þótt upphaflega væri Höskuldur ranglega tilkynntur sem sigurvegari.

Birkir og Sigmundur tilkynntu ákvarðanir sínar formlega á fundi landsstjórnar og þingflokks Framsóknarflokksins sem fram fer á Sauðárkróki um helgina. Samkvæmt heimildum Austurfréttar brást Höskuldur illa við tíðindunum og rauk á dyr.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.