Hringvegurinn allur með bundnu slitlagi: Merkisdagur í samgöngusögu Íslands

Því var fagnað í Berufirði fyrir viku að Hringvegurinn er nú allur lagður bundnu slitlagi eftir að nýr vegur yfir fjörðinn var formlega opnaður. Að klæða þjóðveg númer eitt hefur tekið um fjörtíu ár.

„Þetta er merkisdagur í samgöngusögu Íslands,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra.

Í athöfn að Karlsstöðum í Berufirði afhjúpaði hann skjöld sem festur verður á grjót á áningastað í Berufirði til minningar um þann áfanga að bundið slitlag hefur verið lagt á allan Hringveginn.

„Við afhjúpum ekki minnisvarða eða steina í hvert skipti sem við klippum á borða en nú er langþráð stund runnin upp,“ hélt Sigurður Ingi áfram.

Merkum áföngum ætíð fagnað

Hann rifjaði upp að því hefði verið ákaft fagnað þegar Skeiðarárbrú var tekin í notkun árið 1974. Í kjölfarið hefði verið hugað að því að klæða hringveginn. Á því var byrjað árin 1978/1979.

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, benti á það við opnun vegarins yfir Berufjörð að viðstaddir væru nokkrir starfsmenn Vegagerðarinnar sem fylgt hefðu ferlinu eftir. Ástæða væri til að óska þeim sérstaklega til hamingju með daginn, sem og Austfirðingum og landsmönnum öllum.

Einar Már Sigurðsson, formaður Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi, sagði áfangann langþráðan. Hann sagðist hafa hringt í vin sinn sem væri fróður um sögu vegagerðar og loforða stjórnmálamanna um samgöngubætur sem hefði rifjað upp með honum að stjórnmálaflokkar hefðu fyrst lofað slitlagi á Hringveginn árið 1978. „Að sjálfsögðu fögnum við ætíð þegar búið er að ná merkum áfanga og standa við gefin loforð,“ sagði Einar Már.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hefur þrisvar verið gerð gangskör í að koma bundnu slitlagi á Hringveginn. Fyrst milli Reykjavíkur og Akureyrar 1994, síðan milli Reykjavíkur og Hafnar í Hornafirði 2001 og svo milli Akureyrar og Egilsstaða 2009.

Hringnum var síðan lokað með annars vegar 3,6 nýjum vegi yfir Berufjörð, hins vegar færslu vegnúmersins 1 af Breiðdalsheiði niður á firði 2017. „Með þeirri tilfærslu jókst ekki bara öryggi vegfarenda með að fara af fjallvegi niður á láglendi heldur var líka bara þessi kafli eftir,“ sagði Sigurður Ingi.

Samgöngur tryggja aðgengi að annarri grunnþjónustu

Hann ræddi um aukningu umferðar síðustu ár en sagði að með auknu fé í viðhaldi og þjónustu hefði samt tekist að fækka umferðarslysum miðað við umferðina. Áfram yrði að forgangsraða í þágu aukins umferðaröryggis.

Samhliða því verði leitað leiða til að ganga í aðrar samgöngubætur, enda séu samgöngur forsenda aðgengis að annarri grunnþjónustu. Nefndi Sigurður Ingi veg yfir Öxi í því samhengi, sem að hluta til yrði fjármagnaður með veggjöldum.

Fyrr um daginn hafði ráðherrann kynnt hugmyndir um göng til Seyðisfjarðar þar sem byrjað verði á að bora undir Fjarðarheiði. „Næstu jarðgöng eru sannarlega hér í landshlutanum og munu breyta öllu hér til að styrkja samfélagið,“ sagði hann.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.