Hreinsunaraðgerðum lokið á Fáskrúðsfirði

Hreinsunaraðgerðir virðast hafa gengið vel eftir að umtalsvert magn af olíu fór í sjóinn á Fáskrúðsfirði í gær. Skjót viðbrögð björguðu miklu.

„Við teljum að það hafi náðst að hreinsa ágætlega upp,“ segir Hákon Ásgrímsson, framkvæmdastjóri Fjarðabyggðarhafna en hafnaryfirvöld bera ábyrgð á hreinsunaraðgerðum.

Óhappið varð á sjötta tímanum í gær þegar verið var að dæla olíu í veiðiskipið Hoffell. Samkvæmt tilkynningu sem Skeljungur, sem rekur olíubirgðastöð á Fáskrúðsfirði, gaf teljari í olíuskúr með þeim afleiðingum að olía spýttist út úr honum, flæddi úr skúrnum og í höfnina.

Í tilkynningunni segir ekki ljóst hve mikil olía hafi farið í sjóinn en í fréttum RÚV var magnið áætlað 1.000-1.500 lítrar.

Hákon segir að rétt hafi verið brugðist við og þeir sem tiltækir voru kallaðir út, meðal annars félagar úr björgunarsveitinni Geisla sem komu með bát. Útbreiðsla mengunarinnar hafi strax verið takmörkuð með flotpylsum og síðan hafi menguninni verið dælt upp úr höfninni.

„Lykilatriði að því hversu vel gekk var að brugðist var hratt og vel við í upphafi. Þá voru aðstæður góðar, lygnt og bjart.“

Hann er bjartsýnn á að mestöll olían hafi náðst upp úr höfninni. Í gær hafi sést kám úti á sjó en það hafi að líkindum verið lítið magn sem sjáist betur í björtu veðri. Hreinsunaraðgerðum sé lokið.

Það er síðan höndum Heilbrigðiseftirlits Austurlands að staðfesta hvort aðgerðirnar séu fullnægjandi en eftirlitið fer einnig með rannsókn óhappsins. Umhverfisstofnun hefur einnig fengið gögn um málið og fylgst með.

Í tilkynningu Skeljungs segir að farið verði í að skoða hvers vegna teljarinn hafi gefið sig. Sams konar teljari sé ekki í notkun annars staðar hjá félaginu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.