Orkumálinn 2024

Hrakfallabálkurinn Ragnar náði loks landi í Skotlandi

Gæs, sem merkt var í verkefni sem Náttúrustofa Austurlands er aðili að í sumar, er loks komin á vetrarstöðvarnar í Skotlandi. Gæsin hætti við miðja vegu í fyrri tilraun og sú seinni gekk ekki áfallalaust.

Alls voru 23 grágæsir merktar hérlendis í sumar, þar af ellefu á svæðinu frá Kelduhverfi suður í Berufirði, í rannsókn Náttúrustofunnar, Náttúrufræðistofnunar, Verkís og Nature Scot. Gæsirnar eru búnar staðsetningartækjum sem senda stöðugt boð um GSM kerfi þegar þær eru í sambandi, en safnar annars gögnum þess á milli.

Austurfrétt sagði nýverið frá hrakföllum gæsarinnar, sem ýmist er nefnd Ragnar eftir merkjara sínum eða Gunnarsstaðagassinn eftir Gunnarsstöðum í Þistilfirði þar sem hún var merkt. Hún lenti í mótvindi um 200 km vestur af Færeyjum í fyrri ferð sinni og snéri aftur í Þistilfjörð.

Aftur af stað

Eftir að hafa hvílst þar í viku hélt Ragnar aftur af stað klukkan níu að kvöldi laugardagsins 16. október og kortér í ellefu flaug hann út frá ströndinni, rétt sunnan við Gletting. Rúmum tveimur tímum síðar settist hann á sjóinn til hvílu suðaustur af Íslandi.

Hann virðist hafa farið aftur af stað um klukkan sjö um morguninn. Næst spyrst til hans um hálf fjögur um daginn, syðst á Straumey stærstu ey Færeyja. Þar dvaldi gæsin í um tvo og hálfan sólarhring en flaug aftur af stað um miðnætti og kom um klukkan hálf tíu að morgni miðvikudagsins 20. október til Hjaltlandseyja. Þar dvaldi Ragnar til hádegis að hann hélt til Orkneyja og kom þangað um klukkan þrjú. Morguninn eftir fór hann aftur af stað og kom að vatninu Loch of Harray á Mainland-eyju Orkneyja klukkan hálf tíu að morgni síðasta fimmtudags. Þar er hann enn.

Þar með hafði Ragnar verið á ferðinni í 90 tíma og lagt að baki um 1200 kílómetra. Til samanburðar stóð fyrri tilraun hans í 70 tíma og rúma 1100 km. Í yfirliti frá Náttúrustofu Austurlands um raunir Ragnars er bent á að hann hafi lagt nokkuð meira á sig fyrir ferð á vetrarstöðvarnar en aðrar gæsir sem merktar voru eystra.

Hraðflug og háskaflug

Þannig lagði gæs, sem merkt var við Sléttu í Reyðarfirði af stað að kvöldi 20. október og var komin til Mainland-eyjar morguninn eftir. Hún fór því 870 km á tæpum tólf tímum.

En það er heldur ekki sjálfgefið að komast alla leið. Gassi, sem merkt var í Kelduhverfi í júlí, sendi síðast frá sér boð 30 km suðaustur af Breiðdalsvík um klukkan þrjú aðfaranótt 17. október, um fimm tímum eftir að hún lagði af stað. Hann er nú talinn af.

Allar gæsirnar ellefu sem merktar voru á austurhluta landsins eru nú farnar af landi brott, utan einnar sem lést af ókunnum ástæðum skömmu eftir merkingu. Gæsir sem merktar voru á vesturhelmngi landsins eru enn á landinu.

Markmið rannsóknarinnar er meðal annars að fylgjast með hvernig grágæsirnar dreifa sér um vetrarstöðvarnar á Bretlandseyjum en áhyggjur eru af grágæsastofninum þar sem talningar benda til mikillar fækkunar í honum undanfarinn áratug.

Myndir: Náttúrustofa Austurlands

RagnarKort4

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.