Orkumálinn 2024

Hofsjökli og Þrándarjökli verður ekki bjargað

Hofsjökull eystri mun hverfa á fáum áratugum og Þrándarjökull verður innan tíðar heldur ekki talinn meðal íslenskra jökla vegna hlýnunar jarðar. Þeir hafa meira en helmingast undanfarna öld. 


„Staða þessara jökla er grafalvarleg. Undanhaldið verður afar bratt þegar þeir eru orðnir svona litlir og lágir,“ segir Oddur Sigurðsson, jöklafræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Okjökull á Snæfellsnesi var fyrir rúmu ári tekinn af lista yfir íslenskra jökla og útlit er fyrir að sömu örlög bíð austfirsku jöklanna tveggja. Hofsjökull var árið 2012 3,3 ferkílómetrar að stærð, álíka stór og Okjökull var um aldamótin 2000.

Árið 1890 var Hofsjökull 11,5 ferkílómetrar en var kominn niður í fimm árið 2003. „Ég yrði ekki hissa á þótt að hann yrði farinn á áratug. Þetta er spurning um örfáa áratugi,“ segir Oddur.

Aðspurður um Þrándarjökull svarar Oddur um að hann „haldi lengur út“. Hann var 15 ferkílómetrar 2012, 17 árið 2003 en 33,5 árið 1890.

Oddur telur þessa tvo jökla í hópi þeirra íslensku jökla sem næst muni hverfa. Lega þeirra á landinu gerir það að verkum. „Þeir eru kúpulega og tiltölulega lágir.“

Þrándarjökull nær upp í 1200 metra hæð yfir sjó en Hofsjökull aðeins rúmlega 1100. Á sumrin fer snælínan stundum upp fyrir þessa hæð sem þýðir að alls staðar bráðnar af jöklunum og ekkert safnsvæði er til staðar. „Þannig minnkar af jöklinum miklu örar en jöklum þar sem snjó þrýtur aldrei.“

Grunnskilgreiningin á jökli er að þar sé ís sem sé nógu þykkur, um 40-50 metrar til að síga undan eigin fargi. Við þetta verður eðlisbreyting á ísnum, hann verður seigfljótandi en ekki stökkur og getur þar með farið að skríða eins og jöklar gera.

Bráðnun jöklanna skýrist nær alfarið af hlýnun jarðar. Þrátt fyrri að reynt sé að stemma stigu við henni verður austfirsku jöklunum ekki bjargað. „Tregðan í veðrakerfinu er slík að það tekur að minnsta kosti heila öld að snúa þróuninni við. Austfirsku jöklarnir eru því ofurseldir örlögum sínum.“

Á Austurlandi eru ríflega 40 jöklar, flestir smáir í fjöllum fjarðanna. Oddur segir að þeir geti enst lengur. „Þeir liggja í skálum norðan í móti í fjöllunum. Þar eru þeir í skugga fyrir sólinni svo bráðnunin er hægari. Í djúpum skálum skefur líka í snjó svo afkomuhorfur þeirra eru eitthvað skárri þótt þeir séu minni.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.