Hoffellið til makrílveiða í kvöld

Hoffell, skip Loðnuvinnslunnar heldur til makrílveiða í kvöld. Venus frá Vopnafirði er þegar kominn á miðin. Skip Eskju fara út um helgina en enn eru nokkrir dagar í að vinnsla byrji hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað.


Venus NS frá Vopnafirði, skip HB Granda, var fyrst austfirsku skipanna til að halda á makrílmiðin austur af Vestmannaeyjum. Skipið fór út seinni part sunnudags.

Að sögn Ægis Páls Friðbertssonar, framkvæmdastjóra HB Granda, hefur veiðin verið róleg. Reiknað er með að hefja makrílvinnslu á Vopnafirði á fimmtudag ef veiðin gengur eftir hjá Venusi.

Næst í röðinni er svo Hoffell, skip Loðnuvinnslunnar, sem fer út í kvöld. Hoffellið var á kolmunna í byrjun mánaðarins og landaði síðasta föstudag 750 tonnum.

Börkur og Beitir, skip Síldarvinnslunnar, hafa einnig verið að þreifa fyrir sér í kolmunna. Jón Már Jónsson, yfirmaður landvinnslu, segir veiðina hafa verið mjög trega. Beitir kom inn í nótt og Börkur er nýkominn til lands. Áframhald kolmunnaveiðanna verður ákveðið á næstu dögum. „Við vorum bara að skoða stöðuna. Yfirleitt er best að veiða kolmunnann í desember, efnainnihaldið er best þá,“ segir Jón Már.


Hjá Síldarvinnslunni er áformað að vinnsla á makríl hefjist 20. júlí. Það verður í fyrra fallinu en vinnslan hefur yfirleitt hafist í lok mánaðarins. Jón Már segir bjartsýni ríkja fyrir makrílvertíðinni því verðið sé ágætt á mörkuðum en verra útlit sé fyrir sölu á síld sem stundum veiðist með, þótt aðalvertíð hennar sé ekki fyrr en í lok ágúst og september.

Hjá Eskju er stefnt að því að Aðalsteinn Jónsson láti úr höfn á fimmtudagsmorgun. Skipið var í slipp í Færeyjum nær allan júnímánuð og kom heim nú í byrjun júlí. Reiknað er með að skipið landi á Eskifirði á mánudagsmorgunn. Von er á því að Jón Kjartansson eða Guðrún Þorkelsdóttir fari til veiða um helgina.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar