Hoffellið reynir að ná í það sem eftir er af loðnukvótanum

Hoffell, skip Loðnuvinnslunnar frá Fáskrúðsfirði, kom á loðnumiðin við Snæfellsnes í morgun. Ljóst er að loðnuvertíðin er á lokametrunum en fyrirtækið vonast til að geta náð upp í þann kvóta sem það á eftir.

„Við eigum enn um 1700 tonn eftir. Þarna var ágætis veiði í gær og fyrradag þótt veðrið hafi verið leiðinlegt. Skipin voru að fá í lestina á 1-2 dögum.

Það hefur því verið smá kropp þarna en það getur hætt hvenær sem er. Það er að koma endapunktur í veiðarnar,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar.

Hoffellið landaði 2100 tonnum í heimahöfn á Fáskrúðsfirði í byrjun vikunnar. Það fór strax út aftur á miðnætti og mætti á miðin í morgun, en þangað er um sólarhringssigling á fullri ferð við góðar aðstæður.

Alls hefur Hoffellið landað tíu þúsund tonnum á vertíðinni í fimm veiðiferðum. Allur aflinn hefur farið í hrognavinnslu. Úr þessum afla er búið að vinna 1750 tonn af hrognum og kveðst Friðrik ekki vita til þess að áður hafi verið unnið jafn mikið af þeim úr einu skipi.

„Við höfum verið að skera eftir hrognum stanslaust í þrjár vikur. Við erum óskaplega ánægð með vertíðina. Það hefur alltaf verið veður til veiða, ólíkt því sem gerðist í fyrra þegar gerði brælu fimm daga í röð á hrognatímanum og síðan veiddist ekkert meir.“

Hrognin eru verðmætasti hluti loðnunnar og því leggja flestar útgerðir kapp á að ná sem mestu af þeim. Þau eru síðan geymd og seld miðað við eftirspurn á mörkuðum. „Það hefur verið framleitt það mikið af hrognum í landinu að það tekur örugglega á annað ár að selja þau. Það er í lagi því eins og staðan er í vísindunum þá er ekki útlit fyrir loðnuvertíð á næsta ári. Það fannst ekki nóg af ungloðnu til að gefa út byrjunarkvóta.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.