Hörð mótmæli heimastjórnar á Seyðisfirði gegn laxeldi

„Heimastjórn mótmælir harðlega fyrirhugaðri staðsetningu sjókvíaeldissvæðis við Háubakka inn á "Kringlunni"og fer þess á leit að fallið verði frá þeirri staðsetningu, m.a. með vísan til þess að umrætt svæði er veigamikill hluti af athafnasvæði hafnarinnar. Höfnin er sérhönnuð ferjuhöfn og hér kemur mikill fjöldi skemmtiferðaskipa ár hvert sem oft þurfa á legu á Kringlunni að halda.“

Þetta kemur fram í bókun frá síðasta fundi heimastjórnar á Seyðisfirði þar sem áform um 10.000 tonna laxeldi Fiskeldis Austfjarða í firðinum voru til umræðu.

Þá segir að heimastjórnin fer fram á að Fiskeldi Austfjarða komi sem fyrst á opinberu samtali með heildstæðri kynningu á fyrirhuguðu laxeldi í Seyðisfirði því ekkert opinbert samtal hefur átt sér stað milli fyrrverandi bæjarstjórnar Seyðisfjarðar og fyrirtækisins.

„Heimastjórn vekur jafnframt athygli á því að Seyðisfjörður er einstök náttúrperla sem ber að standa vörð um. Innsigling um fjörðinn er afar glæsileg og vekur gríðarlega athygli þeirra sem hér koma. Því er lögð áhersla á að virku samráði verði komið á með fulltrúum samfélagsins og Fiskeldi Austfjarða varðandi staðsetningu og mögulega útfærslu sjókvíaeldis utar í firðinum út frá reglum um hver sé réttarstaða Seyðisfjarðarhafnar,“ segir í bókuninni.

„Heimastjórn leggur einnig ríka áherslu á að við fyrirhugaða uppbyggingu og rekstur verði horft til þess að nýta þann mannauð og þjónustu sem fyrir er á svæðinu eins og kostur er í beinum og afleiddum störfum.

Heimastjórn gerir þá kröfu á Fiskeldi Austfjarða að það hefji strax samtal við sveitarfélagið og íbúa Seyðisfjarðar um málið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.